Knattspyrna: Fyrsti sigur KFA síðan í annarri umferð
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. jún 2025 11:19 • Uppfært 30. jún 2025 11:22
KFA vann loks eftir sjö leiki án sigurs. Höttur/Huginn náði stigi gegn toppliðinu sem gæti reynst dýrmætt í fallbaráttunni. Fullt af mörkum voru skoruð í neðri deildunum.
KFA vann Víði í Garði 1-2 en liðið hafði ekki unnið síðan í annarri umferð og aðeins gert tvö jafntefli í leikjunum sjö þar á milli. Hrafn Guðmundsson skoraði fyrsta markið á sjöundu mínútu og Heiðar Snær Ragnarsson bætti því næsta við á 30. mínútu. Víðir minnkaði muninn eftir tíu mínútur í seinni hálfleik en komst ekki nær.
Neðsta liðið Höttur/Huginn tók á móti efsta liðinu Þrótti Vogum. Þróttur skoraði eina mark fyrri hálfleiks en þeir Danilo Milenkovic og Stefán Ómar Magnússon, sem var nýkominn inn sem varamaður, skoruðu mörk Hattar/Hugins á 73. og 76. mínútu. Þróttur jafnaði hins vegar í uppbótartíma.
KFA lyfti sér upp um eitt sæti við sigurinn, upp í níunda sæti með 11 stig úr 10 leikjum. Höttur/Huginn er með sex stig.
Mörk og spjöld í neðri deildunum
Spyrnir tók á móti RB í B riðli 5. deildar. Eyþór Atli Árnason og Arnór Snær Magnússon skoruðu fyrir Spyrni í fyrri hálfleik. Eyþór kom liðinu yfir snemma meðan Arnór jafnaði í 2-2 rétt fyrir hálfleik. RB komst yfir strax í seinni hálfleik en missti síðan mann af velli með rautt spjald. Þrátt fyrir að vera manni fleiri í hátt í 40 mínútur tókst Spyrni aðeins að skora eitt mark. Það gerði Eyþór Atli.
Á fimmtudagskvöld tók BN á móti Einherja í utandeildinni. Fyrri hálfleikur var aðallega merkilegur fyrir þær sakir að þrír eldri leikmenn: Björgvin Stefán Pétursson sem skipti í BN fyrir leikinn, Hilmar Freyr Bjartþórsson og Gunnlaugur Bjarnar Baldursson fóru allir meiddir af velli. Óðinn Þór Helgason, Davíð Orri Valgeirsson og Valgeir Elís Hafþórsson skoruðu mörk BN í seinni hálfeik og tryggðu 3-0 sigur.
KB úr Breiðholti kom síðan austur, spilaði við Neista og BN og vann báða leiki 1-3. Haraldur Sigurjónsson skoraði mark Neista í leik þar sem tveir leikmenn KB fóru af velli með tvö gul spjöld. Hákon Huldar Hákonarson kom BN yfir á þriðju mínútu í þeirra leik en þar með var gleðin búin.
Í annarri deild kvenna tapaði Einherji 4-1 fyrir Álftanesi. Coni Ion skoraði mark Einherja seint í fyrri háleik.
Mynd: Unnar Erlingsson