Skip to main content

Knattspyrna: FHL sótti stig á Selfoss

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. maí 2024 11:03Uppfært 06. maí 2024 11:03

Lið FHL í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu náði jafntefli gegn Selfossi í gær í fyrstu umferð Íslandsmótsins. KFA vann Þrótt Vogum í fyrstu umferð annarrar deildar karla meðan Höttur/Huginn tapaði illa fyrir Haukum.


Úrslitin á Selfossi teljast FHL hagstæð þar sem heimaliðið spilaði í úrvalsdeild síðasta sumar. FHL komst yfir strax á fimmtu mínútu þegar Björg Gunnlaugsdóttir skoraði en Selfoss jafnaði mínútu síðar. Deja Sandoval kom FHL aftur yfir á 16. mínútu en Selfoss jafnaði aftur snemma í seinni hálfleik.

KFA fór einnig vel af stað með 2-0 sigri á Þrótti Vogum í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardag. Marteinn Már Sverrisson kom KFA yfir eftir rúman hálftíma. Abdelkadi Khalok El Bouzarri, sem kom frá Víkingi Ólafsvík í vetur, skoraði annað markið í uppbótartíma en hann kom inn á sem varamaður.

Höttur/Huginn tapaði illa, 4-0, fyrir Haukum í Hafnarfirði. Heimamenn skoruðu þrjú mörk í fyrri hálfleik og það síðasta í uppbótartíma.

Um næstu helgi bætast tvö austfirsk lið í hópinn í Íslandsmótinu, Spyrnir í fimmtu deild karla og Einherji í annarri deild kvenna.

Mynd: Unnar Erlingsson