Skip to main content

Knattspyrna: Fátt gleðilegt hjá austfirsku liðunum

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. júl 2025 10:42Uppfært 28. júl 2025 10:42

Helgin var erfið hjá austfirsku liðunum sem töpuðu mörg illa. BN vann Austfjarðaslag við Neista og Spyrnir náði í stig. Hin töpuðu.


FHL var fyrst liðanna til að spila, gegn Val á Hlíðarenda í Bestu deild kvenna. Valur skoraði strax á fyrstu mínútu en Taylor Marie Hamlett jafnaði um miðjan fyrri hálfleik. Taylor skoraði þar með í sínum fyrsta leik fyrir FHL. Valur skoraði sigurmarkið á 63. mínútu, sem þýðir að FHL er enn neðst og án stiga.

Í annarri deild kvenna tapaði Einherji 0-5 fyrir Vestra. Liðið er í 11. sæti með 8 stig.

Erfiður mótherji í utandeildinni


BN var eina austfirska liðið til að vinna þegar það hafði betur 3-0 gegn Neista á föstudagskvöld í utandeildinni. Dagur Þór Hjartarson, Freysteinn Bjarnason og Stefán Bjarki Cekic skoruðu mörk BN, öll í seinni hálfleik.

Einherji tapaði fyrir Afríku 2-5. Cristian Catano, sem nýverið skoraði fimm mörk gegn Neista, var aftur til vandræða og skoraði fjögur mörk. Helgi Már Jónsson og Maxium Iurcu skoruðu mörk Einherja seint í leiknum.

Spyrnir náði í stig gegn Þorláki í 5. deildinni en liðin gerðu 1-1 jafntefli. Bæði mörkin komu í fyrri hálfleik. Hilmir Hólm Gissurarson skoraði fyrir Spyrni.

Höttur/Huginn aftur kominn í fallsæti


Liðin í annarri deild karla eru komin í vandræði eftir að hafa tapað tveimur leikjum í röð, Höttur/Huginn þeim sínu verri. Liðið tapaði um helgina fyrir Dalvík/Reyni 0-4. Staðan var 0-2 í hálfleik og alveg þar til í blálokin. Höttur/Huginn er aftur komið í fallsæti, þremur stigum á eftir næsta liðið. Það á mikilvægan leik gegn neðsta liðinu, Víði í Garði, á miðvikudag.

Fátt fellur með liðinu þessa dagana, þó nokkrir leikmenn eru fjarverandi vegna meiðsla. Vítaspyrna sem liðið fékk fór forgörðum en mark úr henni hefði komið liðinu aftur inn í leikinn.

KFA tapaði 3-2 fyrir Víkingi Ólafsvík. Jawad Boumeddane kom KFA yfir en Matheus da Silva slysaðist til að jafna með sjálfsmarki. Heimamenn komust yfir með marki á lokamínútu fyrri hálfleiks. Heiðar Snær Ragnarsson jafnaði á 50. mínútu en Víkingar skoruðu sigurmarkið á 63. mínútu. KFA er í sjöunda sæti með 17 stig. Þótt heldur styttra sé orðið í botnbaráttuna er heldur ekki langt í öryggið um miðja deild.