Knattspyrna: Áhorfendamet sumarsins enn á fyrsta leik FHL
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. maí 2025 09:05 • Uppfært 08. maí 2025 09:35
Ekki hafa enn fleiri áhorfendur mætt á leik í Bestu deild kvenna í sumar heldur en sóttu fyrsta heimaleik FHL þegar liðið tók á móti Val í annarri umferð. FHL leikur í dag sinn annan heimaleik þegar Þór/KA kemur í heimsókn.
Samkvæmt opinberri leikskýrslu leiksins mættu 332 áhorfendur á leik FHL gegn Val, sem var fyrsti heimaleikur austfirsks liðs í efstu deild kvenna í 31 ár.
Aðrir leikir hafa ekki náð þeim fjölda, þótt fjórar umferðir séu búnar af mótinu. Sá leikur sem komst næst var leikur Fram gegn FH sem 316 áhorfendur mættu á. Fæstir skráðir áhorfendur voru á leik Þór/KA gegn FH eða 75.
Algengt er að sjá milli 100-200 áhorfendur á leik. Þannig sóttu 175 áhorfendur leik Breiðabliks gegn Vali. Rétt er að taka fram að áhorfendatölur vantar á nokkra leiki.
En áhorfendafjöldinn á leik FHL er líka mikill þegar horft er á lengra tímabil. Í umspili efri hluta deildarinnar í fyrra voru þrír leikir sem voru betur sóttir en leikur FHL. Meðal þeirra var hreinn úrslitaleikur Vals gegn Breiðabliki um Íslandsmeistaratitilinn sem 1625 manns sóttu. Sá leikur bar höfuð og herðar yfir aðra leiki deildarinnar síðasta sumar hvað áhorfendafjölda varðaði.
FHL spilar í dag klukkan 18:00 sinn annan heimaleik þegar liðið tekur á móti Þór/KA. FHL hefur ekki enn tekist að ná í stig í fyrstu fjórum leikjunum og aðeins skorað eitt mark. Þór KA er í fimmta sæti með sex stig eða tvo sigra.
Mynd: Unnar Erlingsson