Karfan og knattspyrnan mætast í góðgerðaleik
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 26. des 2012 17:31 • Uppfært 08. jan 2016 19:23
Knattspyrnu- og körfuknattleikslið Hattar mætast í Íþróttahúsinu á Egilsstöðum annað kvöld í leik þar sem ágóði af miðasölunni rennur til Héraðs- og Borgarfjarðardeildar Rauða krossins.
Fyrst verður keppt í knattspyrnu í 10 mínútur, þar sem hvert mark telur sem 10 stig. Næstu 10 mínútur verður svo leikinn körfuknattleikur en enn hvílir leynd yfir því hvað verður boðið upp á í þriðja leikhluta.
Fimleika- og frjálsíþróttadeildir munu einnig leggja sitt af mörkum til að gera dagskrána enn fjölbreyttari. Í fyrra söfnuðust rúmlega 200.000 krónur í tengslum við þennan viðburð og eins og sönnu íþróttafólki sæmir, stefnir Hattarfólk á að gera enn betur í ár.
Aðgangseyrir er kr. 1000.- fyrir fullorðna, en unglingar á grunnskólaaldri greiða kr. 500.- Tekið er við frjálsum framlögum á staðnum. Leikurinn byrjar klukkan 19:00.