Skip to main content

Karfa: Ef við vinnum eigum við séns - ef við töpum erum við fallnir

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. feb 2016 11:43Uppfært 25. feb 2016 11:44

Höttur tekur á móti ÍR í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld í leik sem skiptir miklu máli fyrir Hattarliðið ef það ætlar að forða sér frá falli. Fyrirliðinn segir sigur í síðustu viku hafa byggt upp sjálfstraust í liðinu.


„Þetta er með stærri leikjum félagsins frá upphafi,“ segir fyrirliðinn, Hreinn Gunnar Birgisson. „Ef við vinnum eigum við séns, ef við töpum erum við fallnir.“

Fyrir leikinn eru ÍR-ingar með 10 stig í 10. sæti en Höttur með fjögur í tólfta sæti. Fjórar umferðir eru eftir af mótinu og til að ná ÍR þarf Höttur að vinna leikinn í kvöld og tvo af síðustu þremur gegn því að ÍR tapi öllum sínum og FSu, sem er í ellefta sæti, takist ekki að safna stigum á sama tíma.

En meira þarf til. Séu lið jöfn að stigum í lok deildakeppninnar ráða innbyrðisviðureignir sætaröð. ÍR vann fyrri leik liðanna í nóvember 95-81 svo Höttur þarf helst að vinna með 15 stigum eða meira í kvöld.

Liðið vann sinn annan leik í vetur á útivelli gegn FSu fyrir viku. „Það hjálpar okkur að hafa loks náð að kláraleik. Þetta var ekki okkar besti leikur en við unnum samt.“

Liðið hefur spilað mun betur eftir áramót og jafnvel virst sem um nýtt lið væri að ræða. „Við snérum varnarleiknum alveg við í jólafríinu. Ef við spilum góða vörn eigum við meiri möguleika.“

Hann segir alla leikmenn klára í leikinn í kvöld. „Við æfðum vel í vikunni og það eru allir ferskir.“