Skip to main content

„Karate er ávanabindandi lífsstíll“

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. jan 2016 14:35Uppfært 11. jan 2016 14:36

Þau Guðrún Óskarsdóttir og Einar Hagen verða með kynningu á sjálfsvarnaríþróttinni karate Félagsmiðstöðinni Atóm í Neskaupstað klukkan 17:00 í dag.



Einar og Guðrún flutti austur í Neskaupstað fyrir ári þegar Guðrún var ráðin til Náttúrustofu Austurlands.

Einar er frá Noregi og hefur stundað íþróttina frá unga aldri. Hann hefur þjálfað karate í Reykjavík síðastliðin 11 ár og er meðal fremstu karateþjálfara landsins.

Guðrún hefur æft karate með Breiðablik í Kópavogi síðan hún var barn og segir íþróttina ávanabindandi lífsstíl sem hún geti ekki hugsað sér að vera án.

„Karate er eins og skemmtileg líkamsrækt með tilgang – maður er stöðugt að læra eitthvað nýtt og byggja ofan á ákveðinn grunn íþróttarinnar,“ segir Guðrún.


Vona að sem flestir taki þátt

Guðrún og Einar voru með æfingar í Neskaupstað fyrir áramótin sem voru mjög vel sóttar. Þau vona að sama verði upp á teningnum á vorönninni.

„Við vorum mjög sátt í haust, það mættu 38 manns í prufutíma. Auðvitað duttu einhverjir úr en við vorum með 15 iðkendur í yngri flokk og 12 í unglinga- og fullorðinsflokk. Auðvitað vonum við að sem flestir haldi áfram og nýjir bætist við.

Ég vil bara hvetja alla sem hafa áhuga, að mæta til okkar í dag, ekki bara þá sem búa í Neskaupstað, heldur einnig á stöðunum í kring.“