Skip to main content

Íslandsmeistaratitilinn í torfæru innan tíðar upp á hillu í Fellabæ

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. ágú 2025 13:32Uppfært 18. ágú 2025 13:48

Nánast allt gekk upp hjá Bjarnþóri Elíassyni í allra síðustu keppninni um Íslandsmeistaratitilinn í torfæru sem fram fór á Akureyri á laugardaginn var. Endaði kappinn austfirski í öðru sæti keppninnar sem tryggði að hann varð efstur að stigum í heildarkeppni sumarsins í flokki sérútbúinna bíla.

Þessi lokahluti Íslandsmótsins fór fram við kjöraðstæður á svæði Bílaklúbbs Akureyrar í blíðskaparveðri en báðir austfirsku ökuþórarnir í torfærunni þetta árið; Bjarnþór og Guðlaugur Sindri Helgason í liðinu Olsen Olsen tóku þátt.

Reyndist það Atli Jamil Ásgeirsson sem hafði sigur og náði í 20 stig fyrir það sem þýddi að heildarstigafjöldi hans eftir sumarið voru 72 stig alls. Það dugði ekki til því Bjarnþór Elíasson fékk 17 stig fyrir annað sætið en fyrir þetta mót var hann efstur að stigum með 60 stig. Hann endaði því Íslandsmótið 2025 með 77 stig í heildina og fær að geyma Íslandsmeistaratitilinn á hillu á heimili sínu í Fellabæ næsta árið. Félagi hans Guðlaugur endaði fimmti með 43,5 stig alls.

„Það gekk nánast allt mjög vel á laugardaginn nema hvað að ég gerði smá mistök í síðustu brautinn sem kostaði mig fyrsta sætið,“ segir Bjarnþór. „Það var eina brautin sem klikkaði hjá mér en ég var kominn með það gott forskot á þessum tímapunkti að það slapp til með Íslandsmeistaratitilinn. Ég er afar sáttur með þennan árangur.“

Þó sigurvegarinn um helgina hafi sannarlega verið krýndur að keppninni lokinni fær Bjarnþór þó ekki sjálfan Íslandsmeistaratitilinn afhentan fyrr en á lokahófi Íslensku torfærunnar sem fram fer í nóvember. Í millitíðinni er eitt mót enn eftir en það er sérstakt bikarmót sem fram fer í lok þessa mánaðar á Suðurlandi. Það mót gefur þó ekki stig til Íslandsmeistara.

Bjarnþór á bíl sínum í einni þrautinni á lokamótinu um helgina. Aðstæður voru í alla staði mjög góðar og honum var veitt hörð keppni. Mynd Skapti Hallgrímsson