Skip to main content

Helena Kristín heim til Þróttar

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. jan 2018 12:08Uppfært 03. jan 2018 12:08

Kvennaliði Þróttar í blaki hefur borist öflugur liðsstyrkur því Helena Kristín Gunnarsdóttir hefur ákveðið að spila með liðinu á ný eftir fimm ára fjarveru.


Helena Kristín lék síðast með liðinu veturinn 2011-2012 en flutti það ár til Bandaríkjanna en hún fékk styrk til að spila blak og stunda háskólanám þar.

Helena útskrifaðist í fyrra og tók svo við stöðu aðstoðarþjálfara hjá Louisiana Tech University. Í samtali við Austurfrétt segir hún að landvistarleyfi hennar hafi runnið út um áramótin og hún því talið tímabært að koma heim til Neskaupstaðar í einhvern tíma.

Hún mun spila með Þrótti út leiktíðina en stefnir á meistaranám í haust. Hvar er enn óákveðið.

Helena Kristín er í dag 25 ára gömul en var 15 ára þegar hún kom fyrst inn í meistaraflokk Þróttar. Hún varð Íslands og bikarmeistari með liðinu árið 2011 og fékk eftir það tímabil fjölda viðurkenninga, var meðal annars valin íþróttamaður UÍA.

Þróttur er í efsta sæti deildarinnar og á framundan erfiða leiki gegn HK og Aftureldingu á föstudag og laugardag.

Með liðinu spilar yngri systir Helenu, Heiða Elísabet. „Mér líst vel á að fá að spila með henni,“ segir Helena að lokum.