Skip to main content

Fyrsta formlega bakgarðshlaupið á Austurlandi

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. sep 2024 11:28Uppfært 13. sep 2024 11:32

Fyrsta eiginlega bakgarðshlaupið á Austurlandi verður þreytt á Reyðarfirði á morgun. Hlaupin er ákveðin vegalengd innan eins klukkutíma uns aðeins einn keppandi stendur eftir. Hlaupið er um leið góðgerðahlaup.


Í bakgarðshlaupum er hlaupinn 6,7 km hringur. Þátttakendur hafa eina klukkustund til að klára hringinn og gera sig tilbúna í þann næsta, ella eru þeir úr leik. Þannig heldur hlaupið áfram þar til einn stendur eftir sem sigurvegari.

„Þetta snýst mikið um stemminguna, það er algengt að fólki taki 1-3 hringi. Við eigum ekki endilega von á að það verði margir inn í nóttina þótt við séum tilbúin í það,“ segir Gunnar Lárus Karlsson, sem leitt hefur skipulagningu hlaupsins.

Eftir því sem næst verður komist er þetta fyrsta formlega bakgarðshlaupið sem haldið er á Austurlandi. Gunnar Lárus stóð þó fyrir bakgarðshlaupi á Reyðarfirði í sumar ásamt vinafólki þar sem miðpunkturinn var í garðinum við heimili hans.

Að þessu sinni verður miðpunkturinn við líkamsræktarstöðina Eyrina og þaðan verður hlaupið ræst klukkan tíu í fyrramálið. Þaðan verður hlaupinn hringur sem segja má að nái í kringum þéttbýlið á Reyðarfirði. Gunnar Lárus segir að um það bil helmingur leiðarinnar sé á möl og stígum.

Skráning hefur farið ágætlega af stað en áhugasamir hlauparar geta einfaldlega mætt við Eyrina fyrir klukkan tíu í fyrramálið.

Þótt bakgarðshlaupin séu ekki mörg á Austurlandi er einn fremsti bakgarðshlaupari landsins Elísa Kristinsdóttir, uppalin í Neskaupstað. Aðspurður svarar Gunnar að von sé á henni austur í hlaupið á morgun. Væntanlega nýtist það sem lokaæfing fyrir hausthlaup Náttúruhlaupa um næstu helgi.

Allt skráningargjald hlaupsins rennur til Birtu, samtaka foreldra/forráðamanna sem skyndilega hafa misst börn eða ungmenni.