Skip to main content

Fyrirliðinn: Viljum hafa spennu í þessu

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. mar 2011 23:26Uppfært 08. jan 2016 19:22

blak_hk_throtturn_ymir_throtturr_0122_web.jpgKristín Salín Þórhallsdóttir, fyrirliði kvennaliðs Þróttar í blaki, viðurkennir að liðið stytti hvorki sér né áhorfendum leið í leikjum sínum. Liðið tryggði sér í dag deildarmeistaratitilinn eftir sigur á HK í oddahrinu.

 

„Við erum ekkert að flýta okkur að klára leikina. Við viljum hafa spennu í þeim,“ sagði Kristín í samtali við Agl.is eftir leikinn í Digranesi í dag.

Í oddahrinunni komst HK í 8-3 en Þróttur snéri því við. „Það þurftu 1-2 að stíga upp til að rífa okkur hinar með. Þegar við fórum að pressa brotnaði HK liðið. Við urðum líka að deila boltanum vel, það voru veikindi í liðinu og því ekki allir leikmenn upp á sitt besta.“

HK virtist ganga betur en í bikarúrslitaleiknum um seinustu helgi að loka á besta leikmann Þróttar, Miglenu Apostolovu. Kristín segir samt að það hafi engu skipt.

„Það þýðir ekkert að loka á Miglenu. Hún er svo klók að hún kemst alltaf í gegn. Við reyndum að spila meira upp á miðjuna heldur en um daginn og það gekk ágætlega.“

Sigurinn þýðir heimaleikjarétt í úrslitakeppninni sem er framundan. Kristín segir það skipta miklu máli. „Við erum með langstærsta stuðningshóp landsins. Ef til oddaleiks kemur í Neskaupstað höfum við áhorfendur þar með okkur og þeir eru okkur sem sjöundi maður.“