Frjálsíþróttir: Hafdís og Glói bæði á palli á MÍ í frjálsum
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. jún 2025 17:16 • Uppfært 27. jún 2025 17:17
Báðir keppendur UÍA, Hafdís Anna Svansdóttir og Gabríel Glói Freysson, komust á verðlaunapall á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum fyrir 15-22ja ára sem haldið var um síðustu helgi.
Hafdís Anna vann til gullverðlauna í 400 metra hlaupi stúlkna 16-17 ára þar sem hún hljóp á tímanum 61,42 sek. Þetta er besti árangur Hafdísar í greininni.
Hún átti ágætt mót. Varð fjórða í 200 metra hlaupi á 27,14 sek., sem er hennar besti árangur. Í 100 metra hlaupi varð hún sjöunda á 13,41 sek. sem er líka hennar besti tími.
Gabríel Glói varð annar í 400 metra hlaupi á 56,98 sek. Hann náði líka í bronsverðlaun í 200 metra hlaupi á tímanum 23,86 sek., sem hans besti. Í 100 metra hlaupi varð hann fjórði á 12,33 sek. í úrslitum en var 1/100 fljótari í undanrásunum, sem er hans besti árangur.
Hafdís og Glói æfa bæði með Hetti á Egilsstöðum. Annar fyrrum iðkandi félagsins, Birna Jóna Sverrisdóttir, keppti fyrir ÍR í sleggjukasti. Hún vann það með kasti upp á 52,81 metra.
Eftir viku verður síðan frjálsíþróttamót Sumarhátíðar UÍA á Egilsstöðum og Unglingalandsmót þar um verslunarmannahelgina en 99. Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum verður síðan á Selfossi í lok ágúst.
Hafdís á efsta palli að loknu 400 metra hlaupi. Mynd: Frjálsíþróttasamband Íslands/Hlín Guðmundsdóttir