Skip to main content

Frjálsíþróttir: Hafdís Anna á verðlaunapalli í 400 metra hlaupi

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. sep 2025 09:21Uppfært 04. sep 2025 09:26

Hafdís Anna Svansdóttir varð í þriðja sæti í 400 metra hlaupi á Meistaramóti Íslands sem haldið var á Selfossi nýverið. Annar keppandi UÍA, Gabríel Glói Freysson, bætti sinn besta árangur í greininni.


Hafdís Anna, sem fædd er árið 2008, hljóp 400 metrana á 59,59 sek. en hlaupið var fyrsta keppnisgrein mótsins.

Hún keppti svo í tveimur öðrum greinum, 200 metra hlaupi þar sem hún varð fimmta í úrslitum á 26,81 sek.. Hún komst ekki áfram úr undanúrslitum úr 100 metra hlaupi.

Árangur Gabríels Glóa, sem fæddur er árið 2009, var um margt svipaður en þau kepptu í sömu greinum. Hann komst heldur ekki í úrslit í 100 metra hlaupinu og varð líka fimmti í 200 metra hlaupi á 23,09 sek. 400 metra hlaupið hljóp hann á 52,08 sek. og bætti sinn besta árangur í greininni um 1,16 sek.

Þá keppti í mótinu Birna Jóna Sverrisdóttir, sem er uppalin innan UÍA en keppir og æfir í dag með ÍR. Hún varð önnur í sleggjukasti með kasti upp á 50,14 metra sem er þremur metrum frá því sem hún hefur lengst kastað á árinu.

Samkeppnin þar var hins vegar hörð. Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir sigraði með nýju Íslandsmeti, 71,38 metrum.

Hafdís Anna, fyrir miðju, á verðlaunapalli á móti fyrr í sumar. Mynd: Frjálsíþróttasamband Íslands.