Fótbolti: „Við þurfum að hugsa um hvert stig“
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. apr 2025 17:18 • Uppfært 15. apr 2025 17:22
FHL spilar á morgun fyrsta leik í úrvalsdeild kvenna, þegar liðið heimsækir Tindastól. Fyrsti heimaleikurinn verður svo gegn Val á öðrum degi páska. Liðið vann næst efstu deildina glæsilega í fyrra en úrvalsdeildin er allt önnur keppni.
„Allir leikir eru sýndir í sjónvarpi, það er tekin tölfræði, umfjöllun er meiri og hún getur verið bæði góð og óvægin. Leikmenn verða að vera tilbúnir í það. Styrkur liðanna er mikill. En ég vonast líka til að við fáum margt fólk á okkar leiki. Þetta er stórt skref,“ segir Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari FHL um breytinguna á milli deilda.
Spár, sem birtar hafa verið, gera ráð fyrir að Fram, FHL og Tindastóll verði í fallbaráttunni. Björgvin Karl segir að FHL muni spila öðruvísi en í fyrra þegar liðið pressaði andstæðinga sína og sótti mikið. Nú þurfi að spila öðruvísi.
„Við lögðum upp með að skora fleiri mörk en andstæðingurinn, sem er skemmtilegt fyrir fólk að horfa á en nú þurfum við að hugsa um hvert stig sem þýðir að við þurfum að spila töluvert betri varnarleik. Við erum með hóp sem á að geta það en þá tökum við ekki lengur 30 skot á markið í leik, þannig að við þurfum að nýta færin betur.“
Átta nýir leikmenn
Talsverðar breytingar hafa orðið á liðinu milli ára. Markahrókarnir Sammy Smith og Emma Hawkins skiptu strax síðasta sumar, Selena Salas sem stjórnaði miðjunni getur ekki komið og Deja Sandoval fór í FH.
Í staðinn eru komnar María Björg Fjölnisdóttir frá Fylki, Mikaela Nótt Pétursdóttir að láni frá Breiðabliki, Ólína Sigþórsdóttir frá Völsungi og síðan þær Hope Santaniello, Aida Kardovic, Anna Hurley, Calliste Brookshire frá Bandaríkjunum. Við þann hóp bættist í dag Alexia Czerwien.
FHL hefur lukkast vel að finna erlenda leikmenn síðustu ár. Björgvin Karl segir að aðkomustelpurnar hafi eflt starfið og metnaðinn í kvennaknattspyrnunni. Þær hafa flestar komið úr háskólabolta í Bandaríkjunum og gert stutta samninga með það að nota FHL sem stökkpall til stærri liða og helst atvinnumennsku, annað hvort hérlendis eða í Evrópu. Það hafi lukkast vel því níu af síðustu tíu erlendu leikmönnum hafi náð því markmiði. Hann bætir því við að nýjar deildir í Norður-Ameríku hafi gert samkeppnina harðari en áður og því hafi tekið lengri tíma að setja saman liðið.
Mikilvægt sumar fyrir framtíðina
Liðinu gekk ekki vel á undirbúningstímabilinu, tapaði öllum leikjum sínum í Lengjubikarnum. Þá vantaði nær alla erlendu leikmennina. Þá hafa nokkrar af heimastelpunum glímt við meiðsli og Katrín Edda Jónsdóttir verður ekki með í fyrstu leikjunum.
Björgvin Karl segir ljóst að FHL þurfi að hafa fyrir hlutunum í sumar en bendir á að hvernig sem fer verði sumarið mikilvægt til að öðlast reynslu og vinna að því markmiði að Austurlandi eigi lið í efstu deild kvenna í knattspyrnu.
„Ég er á því að við þurfum lengri tíma til að nálgast hin liðin. Við erum með marga unga leikmenn sem eru ekki orðnir jafn sterkir og leikmenn í efstu deild. Ef við höldum okkur uppi þá kaupum við okkur ár í viðbót til að móta þessa leikmenn fyrir deildina, ef við förum niður þá vitum við hvað við þurfum að gera. Á móti höfum við reynt að sækja okkur leikmenn sem eru það sterkir að þeir hjálpa okkur.“
Hann vonast eftir að Austfirðingar styðji vel við liðið í sumar en það mun leika heimaleiki sína eins og síðustu ár í Fjarðabyggðarhöllinni. „Við þurfum virkilega á því að halda að búa til sterkan heimavöll. Þess vegna skora ég á alla Austfirðinga að koma á völlinn og styðja við stelpurnar. Þær eiga það svo sannarlega skilið.“
Heyra má viðtalið í heild á rásum Austurfréttar á Spotify og YouTube.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.