Fótbolti: Tvö lið snúa aftur til keppni í fyrstu umferð bikarkeppninnar
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. mar 2025 13:46 • Uppfært 28. mar 2025 13:48
Tvö austfirsk knattspyrnufélög sem ekki voru með síðasta sumar, senda lið til keppni þegar bikarkeppni karla í knattspyrnu hefst á morgun.
Einherji tók síðast þátt í Íslandsmótinu sumarið 2022 og vann þá fjórðu deildina. Veturinn reyndist hins vegar erfiður og liðið dró sig úr leik tímanlega fyrir mótið árið eftir. Liðið tekur á móti Sindra í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 16:30 á morgun.
Enn lengra er síðan hitt liðið sem snýr aftur, Neisti Djúpavogi, hefur sést á stóra sviðinu. Reyndar var leikið í búningum Neista þegar Hrafnkell Freysgoði tók þátt í bikarnum árið 2015, tapaði þá 16-0 fyrir Hetti í leik sem seint gleymist þeim sem tóku þátt í honum.
Liðið tók síðasta þátt í Íslandsmóti árið 2007 og lék þá í gömlu fjórðu deildinni. Samkvæmt heimildum Austurfréttar hefur liðið skráð sig til keppni í Íslandsmótinu í sumar. Liðið á útileik gegn Spyrni á Fellavelli sem hefst klukkan 13:00 á morgun.
Við þetta má því bæta að aftur fresta varð leik Þróttar Neskaupstaðar gegn Vestra í úrvalsdeild karla í blaki, sem fara átti fram á Ísafirði í gærkvöldi. Þetta er í annað skiptið í vetur sem fresta þarf viðureigninni. Leikurinn á að fara fram eftir hádegi í dag.