Fótbolti: Þátttökuleyfi FHL í höfn
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 26. mar 2025 16:54 • Uppfært 26. mar 2025 16:55
FHL hefur formlega fengið samþykkt þáttökuleyfi sitt fyrir keppni í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í sumar. Liðið spilar í fyrsta sinn í úrvalsdeild en fyrir því eru sett ákveðin skilyrði um umgjörð liða sem stjórnin hefur unnið að því í vetur að uppfylla.
„Það er mikill léttir að þetta sé í höfn því ferlið hefur verið strangt. Þetta voru mörg lítil atriði sem þurfti að vinna að. Síðasta bréfið fór frá okkur fimm mínútum fyrir fundinn þar sem farið var yfir leyfið,“ segir Hugrún Hjálmarsdóttir, formaður FHL.
FHL ávann sér keppnisrétt í deildinni með sigri í Lengjudeildinni síðasta sumar. Meira en 30 ár eru síðan lið frá Austurlandi spilaði síðast í efstu deild í knattspyrnu en á þeim tíma hefur umgjörðin gerbreyst.
Mikil vinna í fyrsta sinn
Misjafnar kröfur eru gerðar til liða eftir í hvaða deildum þau spila samkvæmt leyfiskerfi Knattspyrnusambands Íslands og eru þær eðli málsins samkvæmt meiri í úrvalsdeild en í neðri deildum.
Hugrún segir að meðal annars hafi þurft að formgera samninga við sjúkraþjálfara og lækni, allir leikmenn þurfi í læknisskoðun, kröfur séu um menntun þjálfara félagsins, að ákveðin gögn svo sem lög og jafnréttisstefna séu aðgengileg á heimasíðu og fjárhagsgögn skulu sett fram á ákveðinn hátt. Þá eru kröfur um leikvöllinn, meðal annars aðstöðu fyrir fjölmiðla.
FHL er ekki sjálfsstætt íþróttafélag heldur samvinnufélag Knattspyrnufélags Austfjarða og Hattar. Vinnan hefur því verið unnin í samvinnu við þau og hafði meðal annars þau áhrif að breyta þurfti ákvæðum í lögum Hattar.
„Þetta er talsverð vinna þegar farið er í gegnum hana í fyrsta sinn. Sumt var til meðan öðru þurfti að breyta. Við höfum verið að þessu síðan í nóvember.“ segir Hugrún.
Þrjár vikur í fyrsta leik
FHL spilar sinn fyrsta leik í deildinni á útivelli gegn Tindastóli þann 16. apríl næstkomandi. Fyrsti heimaleikurinn verður gegn Val á öðrum degi páska, 21. apríl. Hugrún segir að eftirvænting sé að færast yfir bæði hópinn í kringum liðið og samfélagið.
„Það er ekki nýtt að okkur gangi ekki vel á undirbúningstímabilinu en við fórum í æfingaferð nýverið og flestir þeirra leikmanna sem verða með okkur í sumar eru að verða komnir. Núna er tími til að slípa liðið betur til og þá liggur leiðin upp á við. Við finnum líka meiri eftirvæntingu í samfélaginu. Styrktaraðilar eru duglegir að koma með okkur og svo er árskortasala framundan.“