Skip to main content

Fótbolti: Tap í fyrsta úrvalsdeildarleiknum

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. apr 2025 21:54Uppfært 20. apr 2025 21:55

FHL tapaði 1-0 fyrir Tindastóli í fyrsta leik sínum í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu á miðvikudagskvöld. Liðið leikurinn sinn annan leik í keppninni á morgun. KFA og Höttur/Huginn eru úr leik í bikarkeppni karla en Einherji er kominn áfram í bikarkeppni kvenna.


Eins og við var búist var FHL meira til baka í sínum fyrsta leik í úrvalsdeildinni. Liðið fékk þó sín færi, einkum eftir föst leikatriði. Sigurmarkið var skorað 20 mínútum fyrir leikslok.

FHL spilar sinn annan leik þegar Valur kemur í heimsókn klukkan 16:00 á morgun. Valsliðið hefur undanfarin ár verið í fararbroddi í íslenskri kvennaknattspyrnu ásamt Breiðabliki. Það gerði þó aðeins 0-0 jafntefli á heimavelli í fyrstu umferðinni við FH.

KFA og Höttur/Huginn féllu úr leik í 32ja liða úrslitum bikarkeppni karla en liðið léku bæði á útivelli gegn úrvalsdeildarliðum. Höttur/Huginn tapaði 5-0 fyrir Aftureldingu á fimmtudag en KFA tapaði 4-0 fyrir KA á föstudag.

Einherji vann Sindra 4-2 í fyrstu umferð bikarkeppni kvenna í gær. Lilja Björk Höskuldsdóttir og Melania Mezössy skoruðu í fyrri hálfleik en þær Borghildur Arnarsdóttur og Dagbjört Rós Hrafnsdóttir í þeim seinni.

Einherji var kominn í 3-0 eftir rétt rúmlega 50 mínútna leik en gestirnir frá Höfn hleyptu spennu í síðustu 20 mínúturnar með tveimur mörkum á stuttum tíma upp úr miðjum seinni hálfleik. Dagbjört innsiglaði sigurinn í uppbótartíma.

Einherji mætir Völsungi í annarri umferðinni um næstu helgi og á þar líka heimaleik.