Fótbolti: Stig sem gera lítið
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. ágú 2025 11:05 • Uppfært 11. ágú 2025 11:05
Höttur/Huginn og KFA komust bæði taplaus frá helginni í annarri deild karla í knattspyrnu en græða lítið á jafnteflunum sem þau gerðu. FHL er enn án stiga í Bestu deild kvenna.
FHL var án þriggja erlendra lykilmanna þegar FH kom í heimsókn á laugardag. FHL lagði upp með að liggja aftarlega og beita skyndisóknum. Það gekk upp að því leyti að þótt FH væri meira með boltann fékk liðið fá opin marktækifæri.
Það var skot utan teigs sem kom FH yfir á 76. mínútu og annað markið fylgdi sex mínútum síðar. FHL er enn á botni deildarinnar án stiga en á heimaleik á morgun gegn Fram, en liðin komu saman upp í deildina í fyrra.
Einherji hóf leik í C-úrslitum 2. deildar kvenna um helgina með 2-2 jafntefli gegn ÍR á útivelli. Amelie Devaux skoraði mörkin á 28. og 37. mínútu þannig Einherji var 0-2 yfir í hálfleik. Liðinu tókst ekki að halda forskotinu.
Höttur/Huginn áfram í fallsæti
Í annarri deild karla tók Höttur/Huginn á móti KFG úr Garðabæ. Leikurinn endaði með markalausu jafntefli sem gerir lítið fyrir Hött/Hugin. Liðið er í næst neðsta sæti, stigi á eftir Kára.
KFA er ekki langt frá með 21 stig en liðið gerði 1-1 jafntefli við Þrótt Vogum um helgina. Eggert Gunnþór Jónsson jafnaði með skalla eftir hornspyrnu á 95. mínútu. Austfirsku liðin tvö mætast á Norðfirði á miðvikudag.
Fáliðaðir Fálkar
Í utandeildinni vann Neisti lið Fálkanna 7-1. Einn leikmanna Fálkanna fékk rautt spjald á 28. mínútu og máttu gestirnir ekki við því þar sem þeir mættu aðeins 11 austur. Birgir Hákon Jóhannsson og Haraldur Sigurjónsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir Neista. Hin mörkin skoruðu Birkir Viðar Haraldsson, Óðinn Pálmason og Björgvin Sigurjónsson. Fálkar náðu sárabótamarki í uppbótartíma.
BN tapaði 4-2 fyrir KB. Leikurinn byrjaði vel fyrir Austfjarðaliðið, Izaro Sanchez kom því yfir og Bjartur Ólafur Eyþórsson bætti við öðru marki. BN var því 0-2 yfir í hálfleik en Breiðhyltingar skoruðu fjögur mörk í seinni hálfleik.
Mynd: Unnar Erlingsson