Skip to main content

Fótbolti: Spyrnir raðaði inn níu mörkum

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. júl 2025 10:45Uppfært 21. júl 2025 10:55

Spyrnir vann stórsigur á SR um helgina 9-1, sem voru langbestu úrslit austfirsku liðanna um helgina. Höttur/Huginn og KFA töpuðu á ný í annarri deild karla eftir ágætar vikur.


Spyrnir var í miklum ham í fimmtu deild gegn SR um helgina þar sem tíu mörk voru skoruð. Leikir liðanna í sumar hafa verið markaleikir, átta voru skoruð í þeim fyrri en þau skiptust jafnt.

Í liði Spyrnis stóð Hrafn Sigurðsson upp úr því hann skoraði fjögur mörk. Þeir Eyþór Atli Árnason, Arnór Snær Magnússon, Jakob Jóel Þórarinsson, Hilmir Hólm Gissurarson og Helgi Magnús Gunnlaugsson skoruðu sitt markið hver.

Mörg mörk hafa líka verið skoruð í leikjum KFA og Kormáks/Hvatar í annarri deild sumar og þau hafa ekki skipst jafnt. KFA vann fyrri leikinn 8-1 en Kormákur/Hvöt hefndi sín með 5-1 sigri um helgina. Jacques Mben fékk rautt spjald í liði KFA eftir kortér.

Höttur/Huginn tapaði 0-2 fyrir Gróttu. Bæði mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik. Í uppbótartíma voru tveir leikmenn reknir út af, heimamaðurinn Stefán Ómar Magnsson fékk beint rautt spjald og leikmaður Gróttu fékk sitt annað gula spjald.

Höttur/Huginn er aftur orðinn jafn Kára í fallbaráttunni, bæði lið hafa 12 stig en Kári hefur verra markahlutfall sem færir liðið í fallsæti. KFA er í 8. sæti með 17 stig.

Í utandeildinni komu Fálkar austur til að spila tvo leiki. Þeir léku fyrst gegn BN og töpuðu 2-1. Hákon Huldar Hákonarson kom BN yfir snemma leiks, gestirnir jöfnuðu úr víti fimm mínútum fyrir leikslok en á sjöundu mínútu uppbótartíma skoraði Almar Daði Jónsson sigurmarkið úr víti.

Fálkarnir töpuðu síðan 4-0 fyrir Einherja í gær. Helgi Már Jónsson skoraði tvö mörk og síðan þeir Bjartur Aðalbjörnsson og Maxim Iurcu sitt markið hvor. Neisti tapaði 0-8 fyrir Hömrunum þótt Hamrarnir léku manni færri frá 50. mínútu.

Kvennalið Einherja í annarri deild tapaði 5-1 fyrir Sindra á Höfn. Veronika Garabecz skoraði mark Einherja á 50. mínútu en hún kom inn sem varamaður í hálfleik. Einherji er í tíunda sæti með 8 stig, líkt og ÍR og KÞ, eftir 10 leiki.

Mynd: Unnar Erlingsson