Skip to main content

Fótbolti: Spyrnir og Sindri áfram í næstu umferð

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. mar 2025 10:08Uppfært 31. mar 2025 10:08

Spyrnir og Sindri eru komin í aðra umferð bikarkeppni karla í knattspyrnu eftir sigra á Neista og Einherja í fyrstu umferðinni á laugardag.


Nokkur athygli var á leik Spyrnis og Neista enda um fyrsta leik Neista í keppni á vegum Knattspyrnusambands Íslands að ræða frá árinu 2007. En það tekur tíma að komast aftur af stað og leikurinn varð eign Spyrnis sem vann 5-0.

Ármann Davíðsson skoraði fyrsta markið úr víti á 19. mínútu og Jakob Jóel Þórarinsson bætti við tveimur mörkum í fyrri hálfleik. Hrafn Sigurðsson skoraði fjórða markið snemma í seinni hálfleik en síðasta markið var sjálfsmark í uppbótartíma.

Einherji átti líka endurkomu, en liðið spilaði síðast í Íslandsmóti árið 2022. Liðið hélt hreinu í fyrri hálfleik gegn Sindra en leikið var á Reyðarfirði. Viktor Ingi Sigurðsson kom Sindra yfir á 56. mínútu og seinna mark Hornfirðinga var sjálfsmark kortéri fyrir leikslok.

Af liði Einherja má nefna þær fréttir að í vörninni voru þeir Kristófer Einarsson, sem fyrr í vetur hætti hjá Hetti/Huginn eftir að hafa verið fyrirliði um áraraðir. Við hlið hans var Petar Mudresa, annar leikmaður Hattar/Hugins en þetta var hans annar opinberi leikur frá því hann fékk hjartaáfall í lok sumars 2020.

Leikið verður í annarri umferð um næstu helgi. Sindri tekur á móti Hetti/Huginn en KFA á móti Spyrni.

Mynd: Unnar Erlingsson