Fótbolti: Spyrni mistókst að tryggja sæti í úrslitakeppninni
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. ágú 2025 10:43 • Uppfært 25. ágú 2025 10:46
Spyrni mistókst um helgina að tryggja sér sæti í úrslitakeppni fimmtu deildar og þarf að treysta á mikla lukku í leikjum annarra liða. Einherja gengur vel í umspili annarrar deildar kvenna.
Spyrnir spilaði síðustu tvo leiki sína um helgina. Liðið var ekki í vandræðum með RB á föstudagskvöld og vann þann leik 1-4. Jakob Jóel Þórarinsson skoraði tvö mörk, bæði úr vítum og svo þeir Guðþór Hrafn Smárason og Gabríel Daníelsson sitt markið hvor.
Í gær átti liðið leik gegn Stokkseyri, neðsta liði riðilsins sem aðeins hafði unnið tvo leiki í sumar. Sigur í þeim leik hefði tryggt Spyrni sæti í úrslitakeppninni. En það fór á annan veg þar sem Stokkseyri vann 3-1.
Hafþór Berg Ríkarðsson, uppalinn Austfirðingur sem spilaði með Spyrni í fyrra, fór illa með fyrrum samherja sína er hann kom Stokkseyri yfir á annarri mínútu. Brynjar Þorri Magnússon jafnaði fyrir Spyrni á 24. mínútu en Stokkseyri komst aftur yfir á 70. mínútu. Í uppbótartíma kláraði Hafþór Berg leikinn með öðru marki sínu.
Spyrnir hefur lokið leik með 24 stig og er sem stendur í öðru sæti B-riðils, sem gefur sæti í undanúrslitum. Vandamálið er að tvö lið, BF 108 og Úlfarnir, eru með 23 stig. Þau spila sína síðustu leiki og hvorugt þeirra má vinna til að Spyrnir komist áfram.
Einherji ósigrað í C-úrslitunum
Í C-úrslitum, umspili fjögurra neðstu liðanna, er Einherji á ágætri siglingu. Liðið vann um helgina KÞ á Vopnafirði 3-2. Ainhoa Fernandez skoraði öll mörk Einherja, tvö þeirra í fyrri hálfleik og það þriðja strax í upphafi seinni hálfleiks. Af öðrum tíðindum leiksins má nefna að Viktoria Szeles, sem lengi hefur verið lykilmaður Einherja og skorað fjölda marka, spilaði sem markvörður í leiknum. Af fyrstu þremur leikjunum í C-úrslitunum hefur Einherji unnið tvo leiki og gert eitt jafntefli.
Í úrvalsdeild kvenna mistókst FHL að fylgja eftir fyrsta sigri sínum þegar liðið tapaði 4-0 fyrir Þór/KA á Akureyri á fimmtudag. Þótt Keelan Terrell, markvörður FHL væri komin á skýrslu eftir meiðsli þá fékk Embla Fönn Jónsdóttir áfram traustið eftir góða leiki í fjarveru Keelan. Embla varði víti í leiknum.
Erfið vesturferð hjá Hetti/Hugin
Höttur/Huginn er áfram í botnsæti annarrar deildar karla eftir 3-0 tap fyrir Víkingi í Ólafsvík. Meiðsli eru greinilega farin að taka toll af liðinu sem fór aðeins með 16 leikmenn vestur. Enn dugir einn sigurleikur til að komast upp fyrir næstu lið, Víði og Kára, en fjögur stig eru núna í KFG. Þrjár umferðir eru eftir.
KFA hjálpaði einmitt til með 2-1 sigur á Kára á heimavelli. Jawed Boumeddane kom KFA yfir á 29. mínútu en Marteinn Már Sverrisson bætti í forustuna á 62. mínútu. Gestirnir minnkuðu muninn sex mínútum síðar en komust ekki nær. KFA er í 8. sæti með 28 stig. Tölfræðilega getur liðið enn hvort sem er fallið eða farið upp, en raunhæft séð eru helst vonir um að liðið geti unnið sig upp í efri helminginn.
Í utandeildinni tapaði Einherji 0-1 fyrir KB á föstudag, BN 0-9 fyrir Hömrunum á laugardag og Neisti 3-2 fyrir KB í gær. Ágúst Smári Ævarsson og Sævar Atli Sigurðsson skoruðu mörk Neista í seinni hálfleik.