Skip to main content

Fótbolti: Sjö mörk skoruð þegar FHL tapaði fyrir Þór/KA

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. maí 2025 11:36Uppfært 09. maí 2025 11:38

Sjö mörk voru skoruð þegar FHL tapaði 2-5 fyrir Þór/KA þegar liðin mættust í Fjarðabyggðarhöllinni í gær. FHL fékk gullin færi áður en Þór/KA skoraði en reynslumunur virtist skilja liðin að.


Strax á fyrstu tíu mínútunum fengu þær Calliste Brookshire og Hope Santaiello dauðafæri til að koma FHL yfir. Calliste komst inn fyrir vinstra megin en markvörður Þór/KA varði skot hennar vel. Hope náði takmarkaðri snertingu á fyrirgjöf frá hægri.

Það var hins vegar Sandra María Jessen sem kom Þór/KA yfir á 15. mínútu og Sonja Björk Sigurðardóttir skoraði annað mark gestanna mínútu síðar. FHL liðinu var þannig refsað grimmilega fyrir að hafa ekki nýtt sín færi.

Karen María Steingrímsdóttir skoraði þriðja mark Akureyrarliðsins á 37. mínútu. Hún vippaði boltanum frá vítateigslínunni, boltinn fór í þverslána og niður, rétt svo inn fyrir línuna og því dæmt mark.

FHL fékk von í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar hin 15 ára gamla Hrafnhildur Eik Reimarsdóttir skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið þegar boltinn féll fyrir hana eftir hornspyrnu.

Þór/KA óð í færum í upphafi seinni hálfleiks. Fjórða markið, sem Sandra María skoraði eftir klukkutíma leik, var því fyllilega verðskuldað.

Önnur von FHL eftir rautt spjald og víti


En ekki var allt búið enn hjá FHL. Bríet Jóhannsdóttir, varnarmaður Þórs/KA hitti ekki boltann á miðju og missti þar með Björgu Gunnlaugsdóttur inn fyrir sig. Bríet elti Björgu inn á vítateiginn og braut á henni. Á fullri ferð var erfitt að sjá nákvæmlega hvar brotið var og fyrst brot var dæmt fyrir að fara aftan í Björgu í upplögðu marktækifæri var rauða spjaldið eina lausnin.

Dómararnir töldu Björgu hafa verið komna inn í teiginn þegar broti lauk og því dæmt víti. Af sjónvarpsupptökum virðist hins vegar brotið hafa verið utan. En sá kostur er ekki enn í boði á Íslandi og því stóð vítið sem Aida Kardovic skoraði örugglega.

FHL reyndi hvað það gat að nýta liðsmuninn og Björg átti eftir að fá dauðafæri þegar hún slapp inn fyrir vörnina og Calliste komst líka í gott færi. Það var hins vegar Sandra María sem gerði endanlega út um leikinn þegar hún fullkomnaði þrennu sína fimm mínútum fyrir leikslok. FHL vildi aukaspyrnu í aðdraganda þegar Björg féll og meiddist, en hún varð einfaldlega undir í kröftugu návígi.

Á margan hátt kristalla þessi síðustu atvik leikinn. FHL átti fína kafla og fékk sín færi en Þór/KA sýndi reynsluna, liðið nýtt færin og var ákveðnara og sterkara í návígum. Þrjú gul spjöld gestanna snemma í seinni hálfleik eru til marks um þær, þær voru óhræddar við að brjóta á FHL til að stöðva vænlegar sóknir.

FHL er neðst í deildinni, án sigurs eftir fyrstu fimm umferðirnar. Liðið mætir Íslandsmeisturum Breiðabliks í bikarkeppninni eystra á sunnudag.