Skip to main content

Fótbolti: Ólík saga FHL og Víkings í seinni umferðinni

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. sep 2025 10:37Uppfært 22. sep 2025 10:38

FHL lék sinn síðasta leik fyrir úrslitakeppni Bestu deildar kvenna þegar liðið tapaði 4-0 fyrir Víkingi um helgina. Hlutskipti liðanna í seinni helmings mótsins voru afar ólík.


Víkingar komust yfir strax á 14. mínútu, en vendipunktur í leiknum var skömmu síðar þegar Candela Domingo fékk beint rautt spjald fyrir að toga í hár leikmanns Víkinga.

Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari FHL, sagði í viðtölum eftir leik að Candela hefði ætlað að grípa í peysu mótherjans og sleppt um leið og henni urðu mistök sín ljós. Upptökur af atvikinu benda þvert á móti til ásetnings og það skiptir ekki máli, refsa á fyrir hártog með rauðu spjaldi. Víkingar fylgdu þessu eftir með tveimur mörkum fyrir leikhlé og loks því fjórða í uppbótartíma.

Víkingur vann ekki nema einn leik í fyrri umferð mótsins, gegn FHL á Reyðarfirði. Liðin voru því saman við botninn þegar mótið var hálfnað, Víkingur með fjögur stig og FHL ekkert. Víkingar skiptu um þjálfara í landsleikjahléinu og mættu eins og nýtt lið.

Með sigrinum um helgina tryggði liðið sig inn í efri helming deildarinnar, hafandi unnið fimm leiki í röð. FHL var fallið fyrir leikinn en bætti sig heldur í seinni umferðinni, náði í sinn fyrsta sigur og fjögur stig alls.

Fjögur neðstu liðin í deildinni leika nú um endanlega röð í deildinni. Ljóst er að FHL mun ekki færast ofar en það er alltaf stolt og reynsla undir í hverjum leik. Leikið er næstu þrjá laugardaga.

FHL byrjar á útileik gegn Fram, tekur síðan á móti Þór/KA og endar á útileik gegn Tindastóli.

Mynd: Unnar Erlingsson