Fótbolti: Neisti vann fyrsta heimaleikinn
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. jún 2025 09:56 • Uppfært 02. jún 2025 16:12
Neisti Djúpavogi vann í gær sinn fyrsta leik í landskeppni í knattspyrnu frá árinu 2007. Einn leikmaður er eftir úr því liði. Liðin í annarri deild vilja trúlega gleyma helginni sem fyrst.
Upphaflega stóð til að Neisti hæfi keppni í utandeild KSÍ fyrir rúmri viku en þeim leik var frestað vegna veðurs. Neisti spilaði þess vegna sinn fyrsta leik á fimmtudag gegn Hömrunum í Eyjafirði og tapaði 8-0.
Í gær kom Boltafélag Norðfjarðar í heimsókn til Djúpavogs. Neisti spilaði síðast leik í deildakeppni á vegum KSÍ sumarið 2007, vann þá Snört frá Kópaskeri 7-1 á heimavelli. Sá leikur lifir helst í minningu Austfirðinga fyrir þá staðreynd að Snartarmenn voru fáliðaðir á ferð eystra og fengu leikmenn af svæðinu til að hlaupa í skarðið, þannig að liðið var í raun kolólöglegt.
En skemmtilega staðreyndin er sú að í liðinu 2007 var Sveinn Kristján Ingimarsson. Hann hefur byrjað báða leiki Neista til þessa. Sveinn Kristján er væntanlega með elstu leikmönnum Íslandsmótsins í ár, fæddur 1967.
Neisti byrjaði vel í gær, komst yfir með marki Björgvins Sigurjónssonar strax á annarri mínútu. Birkir Viðar Haraldsson, sem kom inn fyrir Svein Kristján snemma í seinni hálfleik, skoraði annað mark Neista á 78. mínútu. Anton Berg Sævarsson minnkaði muninn fyrir BN á 86. mínútu.
Stór töp í annarri deildinni
Helgin var vond fyrir austfirsku liðin í annarri deild karla. Höttur/Huginn mætti KFG á útivelli, en liðin voru fyrir helgina þau einu í deildinni sem ekki höfðu unnið leik. KFG rúllaði yfir Hött/Huginn, skoraði fjögur mörk gegn engu í fyrri hálfleik og bætti því fimmta við eftir leikhlé.
Höttur/Huginn er þar með eitt á botninum, með eitt stig og tólf mörk í mínus eftir fimm leiki.
Hátíð var í aðdraganda leiks KFA sem var að spila sinn fyrsta leik á endurbættum gervigrasvelli í Neskaupstað. Liðið náði ekki að fylgja því eftir og tapaði 0-3 gegn Þrótti Vogum. Liðið er um miðja deild eftir ágæta byrjun.
Mynd: Unnar Erlingsson