Fótbolti: KFA vann toppliðið
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. júl 2025 11:11 • Uppfært 14. júl 2025 11:13
KFA fikrar sig ofar í annarri deild karla en liðið vann efsta liðið Ægi í hörkuleik um helgina. Höttur/Huginn vann Kára á Akranesi í mikilvægum leik í fallbaráttunni. Á Vopnafirði var ævintýralegt markaregn í lokin.
KFA byrjaði vel gegn Ægi á heimavelli því liðið var komið í 2-0 strax eftir tíu mínútur. Heiðar Snær Ragnarsson skoraði strax á þriðju mínútu og Jacques Mben á þeirri níundu. Ægismenn náðu að svara áður en Heiðar Snær skoraði þriðja mark KFA á 21. mínútu.
Gestirnir minnkuðu munninn í 3-2 með marki á lokamínútu fyrri hálfleiks. Þeir jöfnuðu á 82. mínútu en í uppbótartíma skoraði Marteinn Már Sverrisson, sem kom inn á fyrir Heiðar Snæ 20 mínútum fyrr, sigurmarkið.
Tvö rauð í uppbótartíma
Höttur/Huginn mætti Kára á Akranesi í fallslag, en liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn. Þórhallur Ási Aðalsteinsson skoraði eina markið í fyrri hálfleik og Bjarki Fannar Helgason kom Hetti/Huginn í 0-2 á 54. mínútu áður en heimamenn minnkuðu muninn. Eyþór Magnússon innsiglaði í raun sigur Hattar/Hugins með marki á 75. mínútu.
Nóg af drama var eftir í uppbótartíma þegar heimamenn misstu tvo leikmenn út af með rautt spjöld, þann fyrri fyrir brot, þann seinni eftir deilur og áflog. Tveimur færri skoraði Höttur/Huginn fjórða markið. Það gerði Stefán Ómar Magnússon.
Eftir þrjá sigra í röð hefur KFA þokast upp á við, er nú í 6. sæti með 17 stig og er komið í seilingarfjarlægð við fimm efstu liðin sem eru þau sem hafa barist um að fara upp. Sigurinn á Ægi var mikilvægur í að þjappa þeim liðum enn frekar saman og halda í við þau. Höttur/Huginn er í 10. sæti með 12 stig, en er núna kominn þremur stigum frá Kára og Víði.
Fimm mörk á sjö mínútum á Vopnafirði
Í fimmtu deildinni vann Spyrni BF 108 á útivelli. Þór Albertsson og Unnar Birkir Árnason skoruðu mörk Spyrnis, sitt í hvorum hálfleik.
Í tilefni Vopnaskaks á Vopnafirði var hægt að setja saman tvo leiki þar á laugardag. Sá fyrri var milli Einherja og Neista í utandeildinni. Björgvin Sigurjónsson kom Neista yfir en þeir Maxi Iurcu, Eyþór Bragi Bragason og Baldur Geir Hlynsson sáu um að tryggja Einherja fyrsta sigur sinn í sumar.
Seinni leikurinn var í annarri deild kvenna, milli Einherja og KÞ. KÞ hafði yfirburði í leiknum sem lifnaði þó við undir lokin þegar Oddný Karólína Hafsteinsdóttir skoraði þrennu. Fyrsta markið skoraði hún á 78. mínútu, annað á 83. og hið þriðja á 85. mínútu. Þrjú mörk á sjö mínútum eru fáheyrt afrek.
Þórdís Nanna Ágústsdóttir, leikmaður KÞ, skoraði líka þrennu í 3-5 sigri liðsins en hennar fyrsta mark kom á 35. mínútu. Hún virðist reyndar hafa kveikt í lokamínútum þegar hún skoraði á 77. mínútu og kom KÞ í 0-3. Hún skoraði svo aftur á 81. mínútu, þannig að allt í allt voru skoruð fimm mörk á sjö mínútna kafla.