Skip to main content

Fótbolti: KFA og Höttur/Huginn áfram í bikarnum

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. apr 2025 09:44Uppfært 07. apr 2025 09:45

KFA og Höttur/Huginn er komin áfram í 32ja liða úrslit bikarkeppni karla í knattspyrnu eftir að hafa unnið Spyrni og Sindra í annarri umferðinni sem leikin var um helgina.


Fyrstu tvær umferðir bikarsins eru svæðisskiptar og er það svo að lið koma inn á mismunandi stigum eftir hvar þau eru í deildakeppninni.

Um helgina bættust liðin úr annarri deild við og þá var komið að Hetti/Huginn og KFA að spila gegn Spyrni og Sindra sem unnu Neista og Einherja í fyrstu umferðinni.

Höttur/Huginn tók á móti Sindra á Fellavelli og var það Eyþór Magnússon sem skoraði eina mark leiksins á fimmtu mínútu uppbótartíma. Kristján Jakob Ásgrímsson fékk svo rautt spjald á loka mínútu leiksins.

KFA vann Spyrni 3-0 þar sem Unnar Ari Hansson skoraði fyrsta markið strax á 12. mínútu. Unnar Ari er uppalinn Fáskrúðsfirðingur og hefur skipt aftur á heimaslóðir eftir að hafa spilað með Knattspyrnufélagi Kópavogs (KFK) í fyrra. Marteinn Már Sverrisson skoraði svo tvö mörk úr vítum, hið fyrra á 30. mínútu en það seinna á 56. mínútu.

Önnur umferðin klárast í vikunni og eftir það skýrist hvaða lið mætast í 32 liða úrslitum, sem leikin verða um páskana. Í þeirri umferð bætast úrvalsdeildarliðin í pottinni þannig möguleikar eru á að annað hvort austfirsku liðanna mæti slíku liði.