Fótbolti: KFA eina austfirska liðið til að vinna um helgina
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. maí 2025 09:34 • Uppfært 12. maí 2025 09:37
KFA var eina austfirska knattspyrnuliðið sem vann sinn leik um helgina en liðið sótti sigur í Þorlákshöfn. FHL fell úr leik í bikarkeppni kvenna fyrir Íslandsmeisturum Breiðabliks.
KFA er efst í annarri deildinni eftir stórsigur í fyrstu umferðinni. Sigurinn á laugardag gegn Ægi var ekki jafn stór, 1-2 en skilaði jafn mörgum stigum eða þremur. Jawed Boumeddane skoraði fyrra markið á sjöundu mínútu og Jacques Bayo það seinna á 56. mínútu.
Höttur/Huginn tapaði fyrir Kára á heimavelli. Eyþór Magnússon jafnaði leikinn úr aukaspyrnu á 65. mínútu, tólf mínútum eftir að gestirnir komust yfir. Þeir skoruðu svo sigurmarkið á 89. mínútu.
FHL er úr leik í bikarkeppni kvenna eftir 0-3 tap gegn Breiðabliki í Fjarðabyggðarhöllinni í gær. Blikastúlkur voru komnar 0-2 yfir eftir kortér og þannig var staðan þar til um fimm mínútur voru eftir.
Einherji spilaði sinn fyrsta leik í annarri deild kvenna í sumar. Liðið tapaði 0-3 fyrir ÍH.
Mynd: Unnar Erlingsson