Fótbolti: Höttur/Huginn Lengjubikarmeistari
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. apr 2025 07:59 • Uppfært 28. apr 2025 08:00
Höttur/Huginn fagnaði sigri í B-deild Lengjubikarsins í ár eftir sigur á Víði Garði í úrslitaleik um helgina. FHL skoraði sitt fyrsta mark í úrvalsdeild kvenna en Einherji er úr leik í bikarkeppni kvenna.
Höttur/Huginn mætti Víði Garði í úrslitaleik á laugardag en leikið var á hlutlausum velli á Sauðárkróki. Þrjú mörk komu strax á fyrsta kortérinu.
Víðir komst yfir á þriðju mínútu en Bjarki Fannar Helgason jafnaði fyrir Hött á 12. mínútu. Víðir komst aftur yfir á 16. mínútu og var ekki meira skorað í fyrri hálfleik.
Eftir þungasókn Hattar/Huginn í seinni hálfleik jafnaði Genis Caballe loks á 73. mínútu. Ekkert mark var skorað það sem eftir var venjulegs leiktíma né í framlengingu og endaði leikurinn því í vítaspyrnukeppni. Þar vann Höttur/Huginn 3-4.
FHL tapaði 3-1 fyrir FH í Hafnarfirði í Bestu deild kvenna í gær. Fyrri hálfleikur var FHL erfiður, FH skoraði strax á annarri mínútu og bætti við öðru marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks. FHL bætti hins vegar töluvert í eftir leikhlé og Hope Santaniello skoraði fyrsta mark liðsins í sumar á 52. mínútu. FH innsiglaði sigurinn með sínu þriðja marki á 78. mínútu.
Einherji er úr leik í bikarkeppni kvenna eftir 0-7 tap fyrir Völsungi í annarri umferð. Húsavíkurliðið var 0-1 yfir í hálfleik. Leikið var í Boganum á Akureyri á laugardag en leikurinn var skráður heimaleikur Einherja.
Mynd: Höttur/Huginn