Skip to main content

Fótbolti: Höttur/Huginn í úrslit Lengjubikarsins

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. apr 2025 11:02Uppfært 16. apr 2025 11:03

Höttur/Huginn er kominn í úrslitaleik B-deildar Lengjubikars karla eftir sigur á KFG um síðustu helgi. Síðasti leikur FHL í Kjarnafæðismótinu gefur vonir fyrir úrvalsdeildina sem hefst í dag.


Höttur/Huginn lenti undir strax á annarri mínútu gegn KFG í undanúrslitunum en Bjarki Fannar Helgason jafnaði á fjórðu mínútu og kom Hetti/Huginn yfir á 36. mínútu. Sæþór Ívan Viðarsson skoraði síðan þriðja markið kortéri fyrir leikslok.

Bjarki Fannar samdi í vetur við KA en verður áfram hjá Hetti/Huginn sem lánsmaður í sumar. Sæþór Ívan er alinn upp í Leikni Fáskrúðsfirði en lék þar síðast 2020. Síðan lék hann tvö sumur með Reyni Sandgerði og önnur tvö með ÍR.

Kári af Akranesi og Víðir úr Garði mætast í hinum undanúrslitaleiknum á mánudag. Úrslitaleikurinn verður leikinn laugardaginn eftir viku.

FHL burstaði Þór/KA


FHL, sem hefur leik í úrvalsdeild kvenna í dag á Sauðarkróki, lauk keppni í Kjarnafæðismótinu um síðustu helgi með að vinna annað úrvalsdeildarlið, Þór/KA 4-1. Aida Kardovic skoraði tvö mörk, Calliste Brookshire eitt og Hope Santinello eitt.

Mörk FHL komu öll í fyrri hálfleik. Þór/KA var meira með boltann í leiknum en FHL beitti skyndisóknum með framúrskarandi árangri.

FHL hefur verið spáð fallbaráttu í sumar meðan reiknað er með að Þór/KA verði um eða fyrir ofan miðja deild. Út frá þeim forsendum ættu úrslitin um helgina að gefa bjartsýni.

FHL var um helgina komið með nokkuð fullskipað lið fyrir sumarið en aðrir leikir mótsins voru leiknir snemma í vetur. Liðsskipan FHL var þá önnur og liðið tapaði illa fyrir Tindastóli og Þór/KA.

Leikið í bikarnum um páskana


Einnig er vert að benda á að næstu daga verður leikið í bikarkeppnum karla og kvenna. Austfirsku liðin leika bæði á útivelli gegn úrvalsdeildarliðum í 32ja liða úrslitum. Höttur/Huginn gegn Aftureldingu á morgun og KFA gegn KA á föstudag. Í fyrstu umferð bikarkeppni kvenna tekur Einherji á móti Sindra á Fellavelli á laugardag.

Mynd: Unnar Erlingsson