Fótbolti: Höttur/Huginn í undanúrslit Lengjubikarsins
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. mar 2025 09:56 • Uppfært 25. mar 2025 09:58
Þátttöku austfirsku liðanna í deildarkeppni Lengjubikars karla í knattspyrnu lauk um helgina þegar KFA tapaði fyrir Tindastóli. Höttur/Huginn hafði áður tryggt sér sæti í undanúrslitum B-deildar keppninnar.
KFA tók á móti Tindastóli í Fjarðabyggðarhöllinni. Gestirnir skoruðu fyrra markið úr víti á 70. mínútu og það seinna á 85. mínútu.
Liðin voru í 4 riðli B deildar en í honum léku lið af Norður- og Austurlandi. Höttur/Huginn varð efst í riðlinum, vann fjóra leiki af fimm og gerði aðeins jafntefli í fyrsta leik sínum gegn KFA. Undanúrslitin verða leikin eftir tvær vikur.
KFA gekk verr, varð í fimmta sæti af sex og náði aðeins einum sigri til viðbótar við fyrrnefnt jafntefli.
FHL átti einnig erfitt uppdráttar í 2 riðli A deildar kvenna, náði ekki stigi og endaði með markatöluna 1-20.
Rétt er að hafa í huga að austfirsku liðin eiga eftir að fá flesta þeirra erlendu leikmanna sem þau hafa samið um að spila með þeim í sumar. Margir þeirra hafa komið til móts við liðin í æfingaferðum sem þau hafa farið í á allra síðustu vikum.
Mynd: Unnar Erlingsson