Skip to main content

Fótbolti: Höttur/Huginn fallinn

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. sep 2025 11:01Uppfært 15. sep 2025 09:30

Veru Hattar/Hugins í annarri deild karla í knattspyrnu er lokið að sinni eftir 2-1 tap fyrir Þrótti Vogum í næst síðustu umferð deildarinnar. FHL náði í stig í annað skiptið í sumar.


Höttur/Huginn hefur verið í fallhætti nánast allt mótið en örlögin réðust endanlega í Vogum á laugardag. Höttur/Huginn komst reyndar yfir á 24. mínútu með marki Marti Escobedo en heimamenn jöfnuðu og komust yfir um miðjan seinni hálfleik. Þeir héldu forystunni og Kristján Jakob Ásgrímsson fékk rautt spjald í uppbótartíma.

Höttur/Huginn öðlaðist smá von þegar liðið vann Ægi, sem þá var efst, á heimavelli fyrir þremur vikum. Síðan hefur liðið tapað þremur leikjum í röð.

Fæst mörk skoruð


Sigur í Lengjubikarnum gaf liðinu bjartsýni fyrir tímabilið en strax í annarri umferð fóru hlutirnir í baklás. Það er reyndar áhugavert að hitt liðið úr úrslitaleiknum, Víðir, er það lið sem lengst af í sumar hefur verið í fallsætum með Hetti/Huginn.

Leikmenn, sem áttu að vera í lykilhlutverki, meiddust og útkoman varð að liðið hefur aðeins skorað 25 mörk, sem er það minnsta í deildinni. Reynsluboltar hurfu líka úr vörninni síðasta vetur sem varð til þess að Höttur/Huginn fékk á sig 49 mörk, þriðja mest í deildinni.

Þar með er ljóst að liðið leikur í þriðju deild á næstu leiktíð. Liðið var þar síðast sumarið 2021 og vann hana.

Góður endasprettur KFA


KFA vann Víði heima um helgina 2-0. Matheus da Silva kom KFA yfir á 40. mínútu og KFA var í lykilstöðu eftir að einn gestanna fékk sitt annað gula spjald á 60. mínútu. Það var þó ekki fyrr en í lokin sem Geir Sigurbjörn Ómarsson skoraði seinna markið.

KFA hefur verið á ágætu skriði eftir verslunarmannahelgi. Liðið er komið í sjötta sæti með 31 stig. Það mætir KFG í lokaumferðinni í Garðabæ en Höttur/Huginn tekur á móti Kormáki/Hvöt.

Stig til FHL


FHL náði í stig í annað skiptið í sumar í Bestu deild kvenna þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Þrótt í Reykjavík en Þróttarliðið hefur verið í toppbaráttunni í sumar. Björg Gunnlaugsdóttir kom FHL yfir á 26. mínútu en Þróttur jafnaði í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Þróttur komst yfir á 51. mínútu en Taylor Hamlett jafnaði fyrir FHL tíu mínútum síðar. FHL átti ágæt færi í restina en tókst ekki að nýta þau. Liðið er enn í neðsta sæti, en komið með fjögur stig.

Utandeildinni loksins lokið


Einherji vann Smára 4-0 í C-úrslitum annarrar deildar kvenna. Montserrat del Castillo, Sara Líf Magnúsdóttir og Coni Ion skoruðu fyrir Einherja í fyrri hálfleik en Borghildur Arnarsdóttir í þeim seinni. Einherji lýkur sumrinu gegn KÞ um næstu helgi en liðin eru jöfn með 18 stig og sem stendur efst í C-úrslitunum.

Utandeild karla lauk um helgina þegar Neisti vann Einherja 3-1 í leik sem upphaflega átti að vera sá fyrsti í deildinni. Ágúst Smári Ævarsson og Björgvin Sigurjónsson skoruðu mörk Neista í fyrri hálfleik. Maxim Iurcu minnkaði muninn úr víti upp úr miðjum seinni hálfleik en Sævar Atli Sigurðarson skoraði síðasta markið tíu mínútum fyrir leikslok.

Mynd: Unnar Erlingsson