Fótbolti: Höttur/Huginn enn í neðsta sæti þrátt fyrir sigur á toppliðinu
Höttur/Huginn náði í mikilvæg þrjú stig í fallbaráttu annarrar deildar karla í knattspyrnu með 3-1 sigri á Ægi um helgina. Önnur úrslit þýddu þó að liðið er enn í fallhættu. KFA tókst ekki að fylgja eftir góðum sigri í Austfjarðaslagnum í síðustu viku og tapaði fyrir Gróttu.
Höttur/Huginn lenti undir strax á 8. mínútu þegar markahæsti maður deildarinnar, Jordan Adeyemo, kom Ægi skoraði sitt 17. mark í 18 leikjum. Eftir um hálftíma leik fékk leikmaður Ægis sitt annað gula spjald á fjórum mínútum sem opnaði tækifæri fyrir heimaliðið.
Eyþór Magnússon jafnaði á 59. mínútu og þremur mínútum síðar fékk aðstoðarþjálfari Ægis rautt spjald. Marti Escobedo, sem kom til Hattar/Hugins í byrjun ágúst, kom liðinu yfir með sínu fyrsta marki fyrir félagið á 68. mínútu og á sjöttu mínútu uppbótartíma kláraði Danilo Milenkovic leikinn.
Stigin eru mikilvæg fyrir lið í fallbaráttu en Höttur/Huginn er engu að síður enn í neðsta sæti með 17 stig. Kári og Víðir, sem eru þar fyrir ofan, unnu bæði og eru með 18 stig. Víðir er á skriði og vann sinn þriðja leik í röð. KFG tapaði hins vegar um helgina og er þá aðeins þremur stigum frá Hetti/Huginn.
Í leiknum bar það meðal annars til tíðinda að teknar voru vatnspásur, enda leikurinn spilaður í rúmlega 20 stiga hita. Það er ekki í fyrsta sinn í sumar sem slíkt er gert í leik á Egilsstöðum.
KFA fast um miðja deild
KFA náði ekki að fylgja eftir 6-1 sigri á Hetti/Huginn síðasta miðvikudag þegar liðið tapaði 4-2 gegn Gróttu. Grótta var komin í 2-0 strax eftir 12 mínútur en Eggert Gunnþór Jónsson minnkaði muninn á 25. mínútu. Jacques Mben jafnaði svo á 60. mínútu. Heimamenn komust yfir aftur á 77. mínútu og skoruðu fjórða markið í uppbótartíma.
KFA er í áttunda sæti með 24 stig. Tapið um helgina gerði sennilega endanlega út um möguleika liðsins til að gera síðbúið áhlaup á toppbaráttuna.
Spyrnir í góðum möguleika á úrslitakeppni
Í B riðli fimmtu deildar vann Spyrnir mikilvægan sigur á BF 108, 4-0. Hrafn Sigurðsson skoraði tvö mörk og þeir Eyþór Atli Árnason og Hilmir Hólm Gissurarson sitt markið hvor. Þegar tvær umferðir eru eftir er Spyrnir í öðru sæti með 21 stig. Þar á eftir eru BF og Úlfarnir með 20 stig. Spyrnir á eftir tvo útileiki gegn RB og Stokkseyri sem spilaðir verða um næstu helgi. Þau lið eru í neðri hlutanum. Tvö efstu lið riðilsins fara í úrslitakeppni.
Í utandeild tapaði Einherji 2-0 fyrir Hömrunum í Eyjafirði. BN tapaði heima fyrir Afríku 1-3. Davíð Orri Valgeirsson skoraði mark BN í seinni hálfleik en Afríka var þá komin í 0-2. Einn gestanna var rekinn út af á 53. mínútu.
Í C-úrslitum annarrar deildar kvenna vann Einherji 1-5 sigur á Smára í Kópavogi. Oddný Karólína Hafsteinsdóttir og Amelie Devaux skoruðu tvö mörk hvor en Coni Ion setti fimmta markið. Einherji hefur farið ágætlega af stað í C-úrslitunum þar sem fjögur neðstu lið deildarinnar leika um endanlega röð en spiluð er tvöföld umferð.