Skip to main content

Fótbolti: Heitir breytingum á liði FHL eftir erfiða byrjun

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. jún 2025 10:43Uppfært 23. jún 2025 10:57

Breytingar verða gerðar á liði FHL eftir að liðinu mistókst að ná í stig fyrsta hluta Íslandsmótsins. Einherji var eina austfirska liðið sem náði í stig á Íslandsmótinu í knattspyrnu um helgina.


FHL spilaði við Tindastól í Bestu deild kvenna á föstudagskvöld en liðin mættust áður í fyrstu umferðinni. FHL spilaði mjög fínan leik, fékk haug af skotfærum en þau strönduðu á markverði Tindastóls sem átti frábæran leik.

Það var gegn gangi leiksins sem gestirnir komust yfir eftir um hálftíma. Eftir stórskotahríð í byrjun seinni hálfleiks jafnaði Christa Björg Andrésdóttir fyrir FHL á 50. mínútu þegar hún stýrði inn fyrirgjöf Calliste Brookshire.

Calliste hefði getað komið FHL í mjög vænlega stöðu um miðjan seinni hálfleik þegar FHL fékk víti. Markvörður Tindastóls las hins vegar skot hennar og hélt sínu liði á floti. Tíu mínútum síðar skoraði Tindastóll úr skyndisókn. FHL sótti áfram en varð viðkvæmt fyrir skyndisóknum. Tindastóll nýtti tvær slíkar undir lokin.

Tvær farnar


FHL er neðst í deildinni og án stiga. Síðustu tveir leikir, báðir á heimavelli, hafa verið á móti hinum liðum í fallbaráttunni, Víkingi og Tindastóli og báðir tapast. Framundan er mánaðarhlé á deildinni þar sem íslenska landsliðið tekur þátt í Evrópumóti kvenna.

Áður en mótið hefst aftur verður opnað fyrir leikmannaviðskipti. Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari FHL, sagði eftir leikinn að stefnt væri að því að styrkja vörn, miðju og sókn með nýjum leikmönnum. Breytingar eru þegar komnar í gang, samningi hefur verið rift við Önnu Hurley sem var ekki einu sinni á skýrslu á föstudaginn. Aida Kardovic er einnig farin. Hún sleit krossband í hné en fékk síðan vinnu við þjálfun í Bandaríkjunum.

Lið Einherja í annarri deild kvenna var eina austfirska liðið sem náði í stig um helgina en það gerði 2-2 jafntefli við ÍR fyrir sunnan. Melania Mezössy kom Einherja yfir strax á fjórðu mínútu og þannig var staðan í hálfleik. ÍR-ingar jöfnuðu um miðjan seinni hálfleik en Einherji komst yfir aftur þegar Ainhoa Fernandez skoraði á 77. mínútu. ÍR jafnaði aftur í uppbótartíma.

Ekkert gengur hjá liðunum í annarri deild karla en þau töpuðu bæði í miklum markaleikjum. KFA tók á móti Dalvík/Reyni. Í fyrri hálfleik var fátt sem benti til þess sem síðar kom, Jawed Boumeddane skoraði fyrir KFA í uppbótartíma og þannig fór liðið 1-0 yfir inn í leikhléið.

Taphrina í annarri deildinni


Norðanliðið jafnaði eftir tíu mínútur í seinni hálfleik en Marteinn Már Sverrisson kom KFA aftur yfir á 67. mínútu. Gestirnir jöfnuðu aftur tíu mínútum síðar og fylgdu síðan eftir með mörkum á 86. og 89. mínútu. Jawed minnkaði muninn á lokamínútunni en lokatölurnar urðu 3-4.

Höttur/Huginn náði ekki að fylgja eftir sínum fyrsta sigri fyrir viku þegar liðið tapaði fyrir Haukum í Hafnarfirði 3-2. Bjarki Fannar Helgason kom Hetti/Huginn yfir á 17. mínútu en heimamenn jöfnuðu fyrir leikhlé. Strax á annarri mínútu seinni hálfleiks kom Þórhallur Ási Aðalsteinsson Hetti/Huginn aftur yfir. Haukar áttu hins vegar tvö mörk inni um miðjan hálfleikinn.

Höttur/Huginn er í neðsta sæti deildarinnar með fimm stig, enda aðeins unnið einn leik. Hins vegar hefur fjarað undan Fjarðabyggð sem byrjaði á tveimur sigrum en síðan ekki meir. Liðið er í þriðja neðsta sæti með átta stig.

Í utandeildinni tapaði Einherji 0-9 heima fyrir Hömrunum en Eyjafjarðarliðið er með yfirburði í deildinni. BN spilaði tvo leiki fyrir sunnan. Tapaði 4-0 fyrir Fálkum og síðan 4-1 fyrir Afríku þar sem Mikael Þór Jóhannsson skoraði eina markið.