Skip to main content

Fótbolti: Haukar greiddu Hetti/Huginn rothögg í uppbótartíma

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. sep 2025 10:57Uppfært 01. sep 2025 11:00

Staða Hattar/Huginn í annarri deild karla er orðin verulega svört eftir 0-2 tap fyrir Haukum á heimavelli um helgina. Möguleikum FHL í efstu deild kvenna fækkar líka hratt.


Markalaust var í leik Hattar/Huginn og Hauka á Fellavelli í gær fram í uppbótartíma. Jafntefli hefði getað hjálpað Hetti í lokabaráttunni en ekki mikið svo liðið þurfti að taka áhættu til að vinna.

En á sjöundu mínútu uppbótartímans komust Haukar yfir og bættu við öðru marki tveimur mínútum síðar.

Höttur/Huginn er í neðsta sæti deildarinnar með 17 stig. Með sigri næði Höttur/Huginn Víði, sem er næsta lið ofan fallsætis, að stigum en Víðir er með mun betra markhlutfall.

Höttur/Huginn á leik við Þrótt Vogum á útivelli í næstu umferð. Þróttarliðið er sem stendur í efsta sæti, stigi á undan Ægi og Gróttu, sem þýðir að hvert stig skiptir máli í baráttunni um að fara upp. Höttur/Huginn á síðan Kormák/Hvöt á heimavelli í lokaumferðinni.

KFA sótti stig norður gegn Dalvík/Reyni. Heimaliðið komst yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks en Geir Sigurbjörn Ómarsson jafnaði á fimmtu mínútu uppbótartíma leiksins. KFA er í 7. sæti með 28 stig.

Tækifærum FHL fækkar


FHL tapaði 0-3 fyrir Stjörnunni í Bestu deild kvenna. Rósey Björgvinsdóttir, fyrirliði FHL, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 28. mínútu en seinni mörk Stjörnunnar komu á 72. og 90+3 mínútu. FHL er neðst í deildinni með aðeins þrjú stig. Liðið er núna 13 stigum frá Víkingi, næsta liði fyrir ofan fall og 11 stigum frá Tindastóli, sem er næstneðst. Átján stig eru eftir í pottinum.

Einherji tapaði sínum fyrsta leik í C-úrslitum annarrar deildar kvenna þegar liðið lá 0-2 heima fyrir ÍR.

Stór töp í utandeildinni


Í utandeildinni voru skoruð mörg mörk um helgina en þeim var ójafnt skipt. Ekkert kom í hlut Einherja sem tapaði fyrst 5-0 fyrir KB og svo 2-0 fyrir Fálkum. BN skoraði eitt mark en Hamrarnir níu þegar liðin mættust í Eyjafirði. Hákon Huldar Hákonarson skoraði mark BN. Með sigrinum tryggðu Hamrarnir sér sigur í deildinni.

Neisti tapaði 2-6 heima fyrir Afríku. Ágúst Smári Ævarsson kom Neista yfir á 29. mínútu og Sigurður Atli Egilsson jafnaði í 2-2 úr víti á 37. mínútu. Cristian Catano, sem farið hefur illa með austfirsku liðin í sumar, skoraði þrennu áður en hann var rekinn út af með tvö gul spjöld á 75. mínútu.

Einn leikur er eftir í deildinni en Neisti og Einherji spila á Djúpavogi um næstu helgi. Upphaflega átti það að vera fyrsti leikurinn en hann frestaðist vegna rigningar á Djúpavogi.

Myndir: Unnar Erlingsson

fotbolti fhl stjarnan unnar