Skip to main content

Fótbolti: Fyrstu stig FHL í hús eftir sigur á Fram

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. ágú 2025 11:27Uppfært 13. ágú 2025 11:27

FHL vann í gær sinn fyrsta sigur í Bestu deild kvenna í knattspyrnu þegar liðið vann Fram 3-2 í Fjarðabyggðarhöllinni. Þjálfari liðsins segir sigurinn mikilvægan fyrir sjálfstraust liðsins í erfiðri stöðu.


FHL komst yfir á 14. mínútu með marki frá Calliste Brookshire, sem var hið eina í fyrri hálfleik. Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari, var ánægður með frammistöðuna í hálfleiknum. „Hún var svakalega flott. Við hefðum átt að vera búin að skora 3-4 í hálfleik og gera út um leikinn.“

Þannig fór þó ekki heldur varð lokaspretturinn æsilegur. FHL var reyndar komið í góða stöðu fyrir hann, þegar Alexia Czerwien skoraði eftir sendingu Calliste á 86. mínútu. Á 90+3 mínútu minnkaði Fram muninn og freistaði þess eftir það að jafna leikinn. Taylor Hamlett innsiglaði sigurinn á 90+7 mínútu en Fram átti enn mark inni mínútu síðar.

„Þessar mínútur urðu óþarflega hressandi. Það er gaman fyrir fólkið að fá smá spennu og upplifa tilfinningasveiflur. Það var ekki fyrr en síðasta kortérið sem Fram náði einhverjum tökum á leiknum og ég vil meina að þar sé því um að kenna að við spiluðum síðast leik á laugardag og hvíldin hafi verið of stutt.“

Vonast til að leikurinn kenni liðinu að vinna leiki


FHL hafði fyrir leikinn tapað fyrstu tólf leikum sínum í deildinni. Liðið er enn neðst, sjö stigum frá Víkingum. Eftir að tvöfaldri deildakeppni lýkur skiptist deildin og fjögur neðstu liðin leika um endanlega röð og þar með hvaða tvö þeirra falla.

„Tilfinningin eftir leikinn var helvíti góð. Starf þjálfarans hefur mest verið að reyna að blása í glæðurnar hjá leikmönnum og hann hefur blásið og blásið. Mér finnst stelpurnar oft hafa lagt sig fram í sumar, en smáatriðin hafa ekki fallið með okkur eða við höfum gert mistök.

Þótt liðið hefði ekki náð í stig áður voru stelpurnar vel stemmdar fyrir leikinn og ætluðu sér að ná í stig. Það fannst í hálfleik að þær voru virkilega ákveðnar. Ég held að sigurinn geri það að verkum að þær fái meiri trú og betri tilfinningu fyrir því hvað þær þurfi að gera til að vinna leiki.

Ég fer ekki fram á að við vinnum alla leikina sem eftir eru en vonandi nógu marga til að gera úrslitakeppnina spennandi. Sú vinna sem við höfum lagt í í sumar er loks að skila sér,“ sagði Björgvin Karl.

Tvö minniháttar meiðsli


Hann segist líka þakklátur Austfirðingum sem hafi, þrátt fyrir mótbyrinn, stutt við liðið í allt sumar. „Það var vel mætt í gær og við erum þakklát fyrir það.“

Markvörðurinn Keelan Tyrrell missti af leiknum vegna meiðsla og Björg Gunnlaugsdóttir varð að fara meidd af velli um miðjan seinni hálfleik. Björgvin Karl vonast til að hafa þær báðar með fyrir næsta leik. „Keelan er enn að jafna sig og Embla (Fönn Jónsdóttir) átti frábæra frammistöðu en það er betra að hafa tvo markmenn. Björg átti frábæran fyrri hálfleik en meiddist aðeins í læri og varð að fara út af. Hún verður vonandi klár í næsta leik.“