Skip to main content

Fótbolti: Fyrsti sigur Einherja í sumar

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. maí 2025 10:21Uppfært 19. maí 2025 10:22

Lið Einherja í annarri deild kvenna í knattspyrnu vann sinn fyrsta leik í sumar þegar Smári kom á Vopnafjörð um helgina. KFA var annars eina austfirska liðið sem náði í stig.


Einherji tók á móti Smára á Vopnafirði á laugardag. Oddný Karólína Hafsteinsdóttir skoraði tvö fyrstu mörkin og Viktoria Szeles það þriðja þegar Einherji komst í 3-0 á fyrsta hálftímanum.

Viktoria skoraði sitt annað mark eftir rúmlega tíu mínútna leik í seinni hálfleik og Coni Ion innsiglaði 5-0 sigur með marki 20 mínútum fyrir leikslok.

Í Bestu deild kvenna tapaði FHL fyrir Stjörnunni á útivelli. Eina mark leiksins kom í uppbótartíma fyrri hálfleiks. FHL er enn án stiga í deildinni.

KFA gerði 1-1 jafntefli við Víking Ólafsvík á heimavelli á laugardag í annarri deild karla. Bæði mörkin komu rétt í byrjun leiks, Marteinn Már Sverrisson kom KFA yfir á 2. mínútu en Kwame Quee jafnaði á sjöundu mínútu.

Í sömu deild tapaði Höttur/Huginn illa fyrir Dalvík/Reyni á Dalvík á föstudagskvöld, 4-0. Höttur/Huginn hefur farið hægt af stað í Íslandsmótinu og er aðeins með eitt stig úr þremur leikjum.

Spyrnir spilaði sinn fyrsta leik í sumar þegar liðið heimsótti KFR á Hvolsvöll. Hilmir Hólm Gissurarson skoraði mark Spyrnis í 2-1 tapi. Miðað við leikskýrslu virðist leikurinn hafa verið nokkuð ófriðlegur, Spyrnismenn fengu tíu gul spjöld, þar af þrjú á lokamínútu uppbótartíma. Heimaliðið fékk líka fjögur spjöld, öll í fyrri hálfleik.