Fótbolti: Fjögur valin til æfinga með yngri landsliðum
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 26. feb 2025 10:43 • Uppfært 26. feb 2025 10:43
Fjórir leikmenn frá austfirskum knattspyrnuliðum hafa að undanförnu verið valdir til æfinga með yngri landsliðum Íslands.
Björg Gunnlaugsdóttir tók um helgina þátt í tveimur vináttulandsleikjum U-19 ára liðs kvenna við Skota. Björg kom inn á sem varamaður í öðrum leiknum.
Björg spilaði sína fyrstu leiki með U-19 í haust í forkeppni Evrópumótsins og kom þá einnig tvisvar inn á sem varamaður. Næstu verkefni liðsins eru í apríl.
Annar leikmaður FHL, Hrafnhildur Eik Reimarsdóttir, var valin í úrtakshóp U-17 ára liðs kvenna fyrir áramót. Hún náði hins vegar ekki inn í liðið sjálft í þeirri atrennu.
Þá voru þeir Daníel Michal Grzegorzsson úr Val Reyðarfirði og Nenni Þór Guðmundsson úr Leikni Fáskrúðsfirði valdir í æfingahóp U-16 ára landsliðs drengja. Þeir hafa báðir áður náð þeim árangri og Daníel reyndar spilað með liðinu.