Skip to main content

Fótbolti: FHL rankaði við sér eftir 20 mínútur og 0-2 gegn Val - Myndir

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. apr 2025 16:31Uppfært 22. apr 2025 16:33

FHL spilaði í gær sinn fyrsta heimaleik í Bestu deild kvenna þegar liðið tók á móti bikarmeisturum Vals. FHL var komið í erfiða stöðu þegar það komst loks í gang en hafði eftir það í fullu tré við gestina.


Valur var að byrja að taka völdin á vellinum þegar liðið skoraði fyrsta mark leiksins eftir hornspyrnu á níundu mínútu.

Næsta kortérið á eftir hafði Valur öll tök á leiknum, dagsskipan þeirra virtist vera að sækja upp kantana og ná fyrirgjöfum sem gekk ágætlega. Það var hins vegar skyndisókn upp miðjuna og stungusending inn fyrir sem skilaði öðru marki þeirra á 22. mínútu.

Eftir tæpan hálftíma fór FHL að komast inn í leikinn. Tvennt kom til. Annars vegar kom smá hlé í leikinn þegar leikmaður Vals meiddist í návígi. FHL notaði hléið til að fara yfir stöður leikmanna á vellinum.

Aida stjórnaði spili FHL


Hitt atriðið var að Aida Kardovic fór að komast í boltann. Aida gríðarlega flinkur leikmaður, með frábæra fyrstu snertingu, leikni og sendingar. Þetta notaði hún til að halda boltanum fyrir FHL og losa um samherja.

Sem dæmi um hversu illa Val gekk að halda í við hana á miðjunni má nefna aukaspyrnu sem FHL fékk þegar um tíu mínútur voru eftir. Aida hafði þá hrist af sér tvo andstæðinga, sem reyndu að hanga í henni en þeim þriðja tókst að fella hana. Var það þó sennilega vægasta brotið.

FHL fékk nokkur ágæt færi í seinni hálfleik. Á 55. mínútu komst Björg Gunnlaugsdóttir aftur fyrir Valsvörnina en tókst ekki að taka nógu vel á móti sendingunni til að stýra henni á ramma. Tveimur mínútum fyrir leikslok féll boltinn fyrir Aidu í teignum og hún náði að skjóta, en var í takmörkuðu jafnvægi aðþrengd af varnarmönnum. Valskonur fengu líka sín færi í seinni hálfleik, einkum eftir skyndisóknir.

Valsarar hrósuðu umgjörðinni


Ákall var sent til Austfirðinga um að mæta á völlinn og styðja við liðið. Um 350 manns hlýddu því kalli og var stúkan í Fjarðabyggðarhöllinni nærri full. Áhorfendur eiga þó eftir að læra það að mæta fyrr, flestir komu fimm mínútur í leik og var enn nokkur röð þegar leikurinn átti að hefjast.

Í viðtölum við Vísi eftir leikinn hrósuðu bæði þjálfari og fyrirliði Vals umgjörð leiksins og mætingu á völlinn. Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari FHL, sagðist stoltur af sínu liði þótt stress hefði verið í þeim í byrjun.

Myndir: Unnar Erlingsson

[widgetkit id="369" name="20250422: FHL - Valur"]