Skip to main content

Fótbolti: FHL fallið og þjálfaraskipti hjá Hetti/Huginn

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. sep 2025 10:30Uppfært 15. sep 2025 10:31

FHL er fallið úr Bestu deild kvenna eftir eitt sumar þar sem liðið tapaði fyrir toppliði Breiðabliks í gær. Ljóst er að þjálfaraskipti verða hjá Hetti/Huginn eftir tímabilið.


FHL tók á móti Breiðabliki á SÚN-vellinum í Neskaupstað í gær. Liðið lenti í vandræðum þegar framherjinn Tayler Hamlett þurfti að fara út af eftir 20 mínútur en í hennar stað kom Christa Björg Andrésdóttir.

Þá voru gestirnir reyndar komnir yfir og bættu við öðru marki fyrir leikhlé. Blikastelpur gerðu út um leikinn í byrjun seinni hálfleiks, með þremur mörkum á sex mínútum. Birta Georgsdóttir skoraði tvö þeirra en hún setti þrjú alls, hafandi skorað fyrsta markið.

Mörkin urðu reyndar fjögur á átta mínútum eftir að Christa Björg skoraði eina mark FHL á 58. mínútu. Fátt tíðindavert gerðist síðasta hálftímann og Breiðablik vann því 1-5.

Úrslitin þýða að FHL er fallið. Liðið leikur síðasta leik sinn í deildakeppninni í næstu viku, gegn Víkingi í Reykjavík. Fjögur neðstu liðin spila síðan um endanlega röð og er leikin einföld umferð. Það þýðir að 12 stig eru eftir í pottinum en 14 stig eru orðin í næsta lið ofan fallsvæðis.

Góður endasprettur Einherja dugði ekki


Keppni í C-úrslitum 2. deildar kvenna lauk í gær, en þar léku fjögur neðstu lið deildarinnar um endanlega röð. Þrátt fyrir ágætan árangur í þessum síðustu leikjum tókst Einherja ekki að hífa sig upp úr næst neðsta sætinu.

Af þessum síðustu sex leikjum vann liðið þrjá, gerði tvö jafntefli og tapaði aðeins einum. Jafntefli varð niðurstaðan í síðasta leiknum, 1-1 gegn KÞ. Ainhoa Fernandez skoraði mark Einherja á 55. mínútu og kom liðinu yfir en KÞ jafnaði á 71. mínútu.

Þjálfarar Hattar/Hugins hætta


Keppni lauk í annarri deild karla en fyrir leikinn var ljóst að lið Hattar/Hugins væri fallið. Liðið tók á laugardag á móti Kormáki/Hvöt og tapaði 2-4. Gestirnir voru komnir í 0-2 með mörkum Kristins Bjarna Andrasonar, sem átti eftir að skora þrennu.

Marti Escobedo minnkaði muninn á 23. mínútu, en hann kom inn á sem varamaður á 8. mínútu þegar Árni Veigar Árnason meiddist. Þórhallur Ási Aðalsteinsson jafnaði á 52. mínútu en gestirnir áttu svör við því.

Eftir leikinn var staðfest að þjálfarar Hattar/Hugins eru hættir. Brynjar Árnason hefur leitt teymið frá sumrinu 2021, en liðið fór beint upp úr þriðju deild í fyrstu atrennu undir hans stjórn. André Musa hefur verið aðstoðarþjálfari hans alla tíð en hann náði þeim árangri í sumar að leika sinn 100. leik fyrir félagið. Björgvin Stefán Pétursson bættist í hópinn árið 2022. Í tilkynningu félagsins segir að leit að nýjum þjálfara standi yfir og tíðinda sé að vænta fljótlega.

KFA hefur heldur verið á uppleið síðustu vikur en liðið endaði á jafntefli gegn KFG. Garðabæjarliðið komst í 2-0 en Heiðar Snær Ragnarsson minnkaði muninn á 70. mínútu. KFA hefur nokkrum sinnum í sumar bjargað stigum með mörkum seint í leikjum og nú var það Unnar Ari Hansson sem jafnaði á fjórðu mínútu uppbótartíma. KFA lauk keppni í 6. sæti með 32 stig.

Mynd: Unnar Erlingsson