Skip to main content

Forréttindi að fá að vera með í íþróttastarfinu

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. apr 2025 18:31Uppfært 28. apr 2025 18:31

Hjördís Ólafsdóttir, fyrrum formaður frjálsíþróttadeildar Hattar, var nýverið sæmd starfsmerki félagsins. Hún segir ferðakostnað helstu áskorun íþróttastarfsemi á Austurlandi.


Hjördís kom fyrst í stjórn frjálsíþróttadeildar Hattar árið 2014 sem gjaldkeri en tók við sem formaður árið 2016 og gegndi þeirri stöðu þar til í fyrra. Hún hefur einnig verið varamaður í stjórn Frjálsíþróttasambands Íslands og verið burðarás í þeim frjálsíþróttamótum á Austurlandi.

„Það er enginn einn sem viðheldur eða eykur áhuga ungmennanna á tiltekinni íþrótta heldur er það afrakstur margra aðila og þar ekki síst foreldra sjálfra. Auðvitað er jákvætt að hafa sterka aðila til að standa í broddi fylkingar en það eiga mun fleiri heiður skilinn en ég.

Þar má kannski helst að nefna að við höfum verið svo heppin að hafa góða og lærða þjálfara hér, sem hafa góðan grunn og vilja til að kynna og kenna unga fólkinu og hafa ílengst hér eða komið aftur eftir að hafa farið annað. Það hefur verið lykilatriði að mínu mati,“ segir Hjördís um árin í frjálsíþróttunum.

Almennt lægð í frjálsíþróttastarfi


Hjördís er innfæddur Austfirðingur ef svo má að orði komast og ólst upp á Fáskrúðsfirði en flutti upp á Hérað síðar á lífsleiðinni þar sem hún er enn.

„Það er töluverð barátta að halda úti mörgum íþróttagreinum í fámennari byggðum því það eru auðvitað allir að keppa um sama tíma foreldra og barna og aðstaðan er stundum misjöfn á milli greina.

Almennt er lægð bæði hér á Íslandi og almennt í heiminum varðandi frjálsíþróttir og það eru svo margir þættir sem spila inn í hvers vegna ein íþrótt er vinsæl eina stundina en einhver önnur þá næstu.

Aðstaða er stórt atriði og þar erum við Austfirðingar bærilega sett hér á Egilsstöðum. Bæði er aðstaðan innanhúss allgóð en svo eigum við auðvitað Vilhjálmsvöll, sem er eini frjálsíþróttavöllur fjórðungsins þar sem hægt er að halda stærri mót. Ef við hefðum ekki þá aðstöðu væru alls engin stórmót sem fram færu hér og við þurfum að gæta þess að passa upp á slíkt.“

Ferðakostnaður íþyngjandi


Hjördís nefnir líka mikinn ferðakostnað íþróttafólks frá Austurlandi en sá kostnaður vex ár frá ári og gerir það erfitt fyrir austfirska keppendur að taka þátt annars staðar án þess að greitt sé duglega úr vasa foreldra.

„Ef ég þyrfti að nefna eitthvað eitt sem er hvað stærsta vandamálið sem þarf að ráða bót á, þá er það þessi mikli ferðakostnaður okkar hér. Það er mjög brýnt að ráða bót á því með einhverjum hætti ef íþróttastarf á að þróast og dafna hér áfram.“

Hjördís og Guðmundur B. Hafþórsson sem einnig fékk starfsmerki Hattar.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.