Skip to main content

Fjarðabyggð í fallsæti

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. júl 2010 18:11Uppfært 08. jan 2016 19:21

kff_grotta_0062_web.jpgFjarðabyggð er komin í fallsæti í 1. deild karla eftir ósigur gegn ÍA um helgina. Leiknir virðist ætla að fylgja Dalvík/Reyni í úrslitakeppni þriðju deildar.

 

Skagamenn komust í 3-0 fyrir hálfleik og fljótlega í seinni hálfleik bættist fjórða mark þeirra við. Hákon Sófusson skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir Fjarðabyggð á 58. mínútu en hann kom inn á sem varamaður. Aron Smárason skoraði annað mark Fjarðabyggðar á 70. mínútu.

Fjarðabyggð og Njarðvík eru í fallsætum 1. deildar með 11 stig en lítill munur er á liðunum í neðri helmingi deildarinnar. Fjarðabyggð tekur á móti Þrótti á miðvikudag.

Fjarðabyggð vann seinast leik gegn HK í Kópavogi 19. júní. Síðan hefur liðið leikið sex leiki, gert tvö jafntefli en tapað fjórum.

Staða Hattar í annarri deild karla er ólíkt betri þótt liðið hafi tapað 1-0 fyrir Völsungi á Húsavík um helgina. Höttur er enn í fjórða sæti en er nokkuð farinn að dragast aftur úr þremur efstu liðunum.

Leiknir styrkti stöðu sína í 3. deild karla með 4-2 sigri á Huginn á fimmtudagskvöld en Leiknir virðist berjast við Magna um hvort liðið fylgi Dalvík/Reyni í úrslitakeppnina.
Vilberg Marinó Jónasson skoraði sitt 200asta mark á ferlinum úr víti í seinni hálfeik. Í fyrri hálfleik skoraði Almar Daði Jónsson tvö mörk fyrir Leikni og Svanur Freyr Árnason eitt. Jack Hands og Tómas Arnar Emilsson skoruðu mörk Hugins, sitt í hvorum hálfleik.
Einherji tapaði 5-1 fyrir Dalvík/Reyni.

Í 1. deild kvenna tapaði Höttur 0-2 fyrir Fjölni í dag. Bæði mörkin komu í fyrri hálfleik. Á miðvikudag tapaði Fjarðabyggð/Leiknir fyrir Fjölni á Framvellinum, en leikurinn var samt heimaleikur Fjarðabyggðar. Unnur Ólöf Tómasdóttir skoraði markið.