Fengu fyrstu golfsettin með togurum frá Hull og Grimsby
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. okt 2025 16:58 • Uppfært 02. okt 2025 16:58
Í ár er haldið upp á það að 60 ár eru liðin síðan Golfklúbbur Norðfjarðar (GN) var stofnaður. Klúbburinn fór þó af stað án þess að hafa völl eða annan búnað sem þarf til golfiðkunar.
Það var Gissur Erlingsson, þáverandi póst- og símamálastjóri Neskaupstaðar, sem boðaði hóp manna til fundar vorið 1965 til að stofna klúbbinn eftir að hafa kynnst íþróttinni þegar hann vann í Vestmannaeyjum.
Klúbburinn byrjaði af mikilli bjartsýni, þótt hann vantaði svæði undir völl og Kaupfélagið Fram verslaði almennt ekki með golfsett og golfkúlur.
Golfvallarsvæðið fékkst fljótt með því að leigja land á Grænanesi, sem GN eignaðist síðar að hluta. Golfsettin fengust frá ensku borgunum Hull og Grimsby. Samið var við sjómenn á togurum sem sigldu þangað reglulega að kaupa settin.
Uppbygging golfskála
Félagar í GN hafa líka verið útsjónarsamir með fleira í gegnum tíðina og hugsuðu í lausnum þegar þeir komu sér upp golfskála.
Fyrstu árin urðu þeir sér úti um gamlan skúr frá olíufélagi á staðnum og stóð hann um skeið þangað til mikið óveður feykti honum út í hafsauga. Eftir það var notast við gamla sendibifreið á mótum meðan leitað var annarra lausna.
Nokkrum árum síðar fékk klúbburinn til afnota vegavinnuskúr frá Vegagerðinni, sem sannarlega var lítill en þó töluvert betri kostur en sendibíllinn. Það var svo árið 1990 sem klúbburinn fékk vilyrði fyrir að fá gamla flugskýli Norðfjarðarflugvallar gegn flutningi og ári síðar var það komið að vellinum á Grænanesinu. Betrumbætur í kjölfarið urðu þess valdandi að klúbburinn gat í fyrsta sinn haldið uppi góðu félagsstarfi og reglulegu mótahaldi.
Það var svo loks um aldamótin sem klúbburinn fékk sitt fyrsta raunverulega sérhannaða klúbbhús, sem enn er í notkun en viðbætur hafa þar verið gerðar síðan með góðum sólpalli og fleiru.
Fjölmennt í afmælisveislu
Haldið var upp á afmælið í sumar og sóttu um 100 manns veisluna. Einnig hélt klúbburinn sitt fyrsta meistaramót í langan tíma. Tíðarfarið átti líka sinn þátt í hátíðahöldunum en völlurinn hefur sjaldan komið eins vel undan veðri eða verið jafn góður og hann var í sumar.