Skip to main content

Ekki tími til að stoppa til að drekka í keppni um brautarmetið í Tour de Orminum

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. ágú 2025 13:40Uppfært 19. ágú 2025 16:30

Brautarmet var bætt í bæði karla- og kvennaflokki í 103 km keppni í hjólreiðakeppninni Tour de Ormurinn sem fram fór á laugardag, sama dag og hitamet var sett á Egilsstaðaflugvelli. Sigurvegari í keppninni segist hafa fundið verulega fyrir áhrifum hitans þegar leið á keppnina.


„Ég hef ekki upplifað áður í keppni að finnast ég þurfa að stoppa til að fá meiri vökva en það var ekki tími til þess.

Ég er alveg vanur góðu veðri frá Akureyri en þetta var öðruvísi. Sá sem hjólaði með mér er vanur að fara árlega til Kanarí en ég hef ekki farið til útlanda til að hjóla.

Ég var að skoða hitatölurnar úr Garmin-tækinu mínu. Það var 27-29 gráðu hiti, eftir hvar maður var í brautinni og hlýnaði heldur þegar á leið. En það er ekki hægt að kvarta.“

Met á hjólum og í hita


Þetta segir Rögnvaldur Már Helgason úr Hjólreiðafélagi Akureyrar (HFA) sem á laugardag kom fyrstur í mark í 103 km keppni Ormsins, sem UÍA hefur haldið frá árinu 2012. Tími hans var 3:05,45 klst., sá sami og hjá Jóni Arnari Sigurjónssyni úr Tindum en Rögnvaldur var sjónarmun á undan. Brautarmetið var 3:08,33.

Harpa Mjöll Hermannsdóttir, einnig úr HFA, varð fyrst í kvennaflokki á tímanum 3:42,59 og bætti brautarmetið í flokknum um fimm mínútur. Silja Jóhannesdóttir varð fyrst kvenna í 68 km hringnum á 1:55,23, sjónarmun á undan Bjarna Jónassyni sem var fyrstur karlanna. Þau koma bæði úr HFA.

En þetta voru ekki einu metin sem bætt voru þennan dag því skömmu eftir að keppni lauk mældist 29,8 stiga hiti á Egilsstaðaflugvelli. Það er hæsti hiti sem mælst hefur hérlendis frá árinu 1946 og sá hæsti nokkurn tíma í ágúst.

Tók áhættu á mjóum dekkjum á malarköflunum


Í keppninni eru hjólaðir tveir hringir frá Egilsstöðum. Annars vegar 68 km hringur sem er upp Fell, yfir Jökulsá í Fljótsdal við Hengifoss og út í gegnum Hallormsstað. Sú leið er öll á malbiki. 103 km hringurinn beygir ekki við Hengifoss heldur er haldið áfram inn í Fljótsdal og síðan farið út dalinn austanverðan. Þar eru tveir malarkaflar, þótt annar þeirra hafi verið styttur í fyrra um 1 km með klæðningu sem bætti skilyrði fyrir brautarmetið.

„Ég ákvað snemma í vor að fara 103 km og fór þá að velta brautarmetinu fyrir mér. Ég ákvað að taka áhættuna á að hjóla á racer-hjóli alla leið, þótt það auki líkurnar á að sprengja á malarköflunum.

Ég hélt lengi að ég yrði einn á þessum hraða í 103 km því hraðasta hjólafólkið hefur gjarnan farið 68 km, en Jón Arnar skráði sig á fimmtudeginum. Við fórum með hópnum sem varð fremstur í 68 km til að hafa skjól og halda hraða.

Ég ætlaði að skilja Jón Arnar eftir á fyrri malarkaflanum en tókst ekki þótt hann hægði á sér til að sprengja ekki, hann náði mér aftur á malbikinu. Seinni malarkaflinn er verri og við fórum hann báðir frekar rólega.

Frá Hallormsstað var ég að fást við krampa og leið illa. Við skiptumst á forustunni, ef ég hefði verið á undan þá hefði hann elt mig og gert árás í lokin. Ég sagði honum að ég gæti hjólað hraðar en við ákváðum að skiptast á forustunni og keppa svo í lokin,“ segir Rögnvaldur um keppnina sjálfa.

Tour de Ormurinn heldur í almenningssteminguna


Rögnvaldur var að taka þátt í Tour de Orminum í þriðja sinn, en hann varð annar í 68 km í fyrra. Hann er hluti af stórum hóp Akureyringa sem mæta austur ár eftir ár. „Það er stutt að fara fyrir okkur og þetta er skemmtileg keppni. Við erum öll sammála um það.

Það er staðið vel að keppninni, umgjörðin góð, fyrirtækin, sérstaklega Vaskur, styðja hana vel og vinningarnir eru flottir. Það sem einkennir hana er almenningsíþróttastemmingin sem er horfin úr mörgum öðrum hjólakeppnum.“