Skip to main content

Datt þeirra megin í dag

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. júl 2010 20:47Uppfært 08. jan 2016 19:21

kff_fjolnir_0032_web.jpgFjölnir sigraði í dag Fjarðabyggð í 1. deild karla í knattspyrnu 0-1 á Eskifjarðarvelli. Sigurmarkið kom tveimur mínútum fyrir leikslok. Þjálfari Fjarðabyggðar segja gestina úr Grafarvoginum hafa verið heppnari.

 

Bæði lið höfðu átt ágætis færi í leiknum og markvörður Fjarðabyggðar, Srdjan Rajkovic, bjargað 2-3 sinnum mjög vel. Hinum megin hafði Fjarðabyggð álíka oft tekist að opna vörn Fjölnis en skotin geiguðu. Sigurmarkið var fast skot utan af hægri kanti sem sveif inn á nærstöng.

Heimir Þorsteinsson, þjálfari Fjarðabyggðar sagði sigurinn hafa „dottið“ Fjölnismegin. Hann var ekki ósáttur við leik Fjarðabyggðar en sagði sína leikmenn „ekki hafa verið nógu klóka í sókninni á blautum velli. Þetta var algjör jafnteflisleikur.“

Leikurinn átti upphaflega að fara fram í gær en var flautaður af eftir 25 mínútur vegna þess að völlurinn var hreinlega á floti. Í samtali við Agl.is eftir leikinn í dag sagði Heimir að aldrei hefði átt að flauta þann leik á. Menn hafi ekki áttað sig fyllilega á aðstæðum og dómarinn gert sitt besta til að halda leiknum gangandi.