Skip to main content

Bráðabana þurfti til í sveitakeppni golfklúbba á Austurlandi

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. jún 2025 11:00Uppfært 23. jún 2025 11:49

Þrátt fyrir að ekki hafi verið kjöraðstæður til golfs um helgina kom það ekki í veg fyrir æsispennandi úrslitaleiki bæði í kvenna- og karlaflokki í sveitakeppni golfklúbba á Austurlandi en keppt var á Ekkjufellsvelli í Fellabæ.

Mótið allt tókst þó eins vel og hægt var að óska sé að sögn Atla Más Sigmarssonar sem sat í mótsstjórn. Bæði var þátttaka í mesta lagi og ekki á hverjum degi sem svo hnífjafnt er í úrslitum að bráðabana þurfti til og það fjórum sinnum til að úrslit í karlaflokki réðust.

Þar stóð lið Golfklúbbs Fljótsdalshéraðs uppi sem sigurvegari eftir harða rimmu við lið Golfklúbbs Hornafjarðar í karlaflokknum en dömurnar úr Golfklúbbu Byggðarholts tryggðu sér titilinn í kvennaflokknum. Í kvennaflokki tóku nú þátt ein fimm lið sem er með því allra mesta og að sögn Atla Más til marks um að mikil vinna allra austfirsku klúbbanna við að fjölga kvenfólki í sportinu sé að skila sér.

„Heilt yfir var þetta flott mót og allt gekk upp þó veðurfarið hafi mátt vera aðeins betra. En virkilega skemmtileg og spennandi helgi að baki og gaman að vera búnir að prófa að halda þetta mót svona töluvert fyrr en venjulega. Hingað til hefur það jafnan farið fram á Bræðsluhelginni í júlí og þetta fyrirkomulag gekk vel nú.“