Blak: Tvöfaldur tvíhöfði fyrir austan um helgina
Bæði lið Þróttar spiluðu tvo leiki við Þrótt Reykjavík í efstu deildunum í blaki um helgina. Úrslitin urðu önnur en heimaliðin stefndu að.
Karlaliðin léku fyrsta leikinn klukkan 13:00 á laugardag. Leikurinn var jafn og stemmingin góð þótt gestirnir færu að lokum með 1-3 sigur af hólmi.
Fyrsta hrina leiksins fór brösuglega af stað. Röð mistaka beggja liða urðu til þess að fáar sóknir og stuttar hrinur einkenndu fyrri helming hrinunnar. Sterkar uppgjafir gestanna komu þeim í ágæta forystu en heimamenn náðu að koma sér í gang og jöfnuðu í 21-21. Raul Asensio átti svo síðasta stig hrinunnar þegar hann skoraði beint úr uppgjöf sem andstæðingarnir áttu ekki séns í. Lokastaða fyrstu hrinu var því 25-23 fyrir heimamönnum.
Hiti var kominn í gestina og svöruðu þeir sigri Þróttar Fjarðabyggðar í fyrstu hrinu með blokk sem líkja mætti við Kínamúrinn. Smöss heimamanna komust varla yfir og augljóst var að eitthvað þyrfti að breytast hratt. Heimamenn eyddu fáum stigum í það og fóru að lesa blokk andstæðinganna eins og lófann á sér. Það varð til þess að hrinan varð hnífjöfn en gestirnir náðu að jafna leikinn þegar staðan var 17-17. Lokatölur hrinunnar voru 23-25 líkt og fyrri hrina en þó fyrir gestunum í þetta sinn.
Þróttur Reykjavík byrjaði þriðju hrinuna af miklum krafti og var það ekki fyrr en um miðja hrinu að hún varð hnífjöfn á ný. Frá ellefta stigi liðana skiptust þau á að skora, þar til gestirnir stungu af og unnu hrinuna 19-25.
Líkt og í þriðju hrinu byrjaði lið Þróttar Reykjavíkur með yfirburðum og komst í 7-14 um miðja hrinu. Heimamenn voru þó ekki búnir að gefast upp og náðu að minnka bilið í 18-21. Það dugði þó ekki til og lokastaða fjórðu hrinu varð því 20-25 fyrir Þrótti Reykjavík og úrslit leiksins þar með 1-3.
Leikurinn var virkilega jafn og erfitt var að segja til um hvort liðið myndi vinna. Skemmtilegasta atvik leiksins var í þriðju hrinu þegar Arturo Yesares blokkaði miðjusmass andstæðinganna með annarri hendinni. Það er sjaldséð sjón og stúkan trylltist. Raul var lykilleikmaður Þróttar í þessum leik og var hann stigahæsti leikmaður leiksins með 22 stig. Stigahæstur í liði gestanna var Przemyslaw Stasiek með 14 stig.
Yfirburðir gestanna í kvennaleik laugardagsins
Annar leikur helgarinnar hófst um 15.30 þegar kvennalið Þróttar Fjarðabyggð tók á móti kvennaliði Þróttar Reykjavíkur. Þróttur Reykjavík hafði yfirburði og vann 0-3.
Í fyrstu hrinu tóku gestirnir hratt fram úr heimaliði Þróttar, sem átti aldrei von um að jafna. Vörn Þróttar Reykjavíkur var gríðarlega sterk og virtist ekkert geta brotið hana. Auk þess fóru margir boltar heimamanna út af, bæði uppgjafir og smöss. Gestirnir unnu því fyrstu hrinu 15-25.
Önnur hrina byrjaði mun jafnar en sú fyrsta en fljótlega, eins og áður, voru gestirnir komnir með mikilvægt forskot. Þrátt fyrir að mistökunum fækkaði hjá liði Þróttar Fjarðabyggðar dugði það ekki til vegna þess að bæði vörn, sókn, og blokk gestanna var mun sterkari. Þróttur Reykjavíkur vann því aðra hrinu 12-25.
Lítið breyttist í þriðju hrinu leiksins og voru lokatölur í þeirri hrinu 10-25 fyrir gestina. Lokatölur leiksins því 3-0 fyrir Þrótti Reykjavík
Stigahæst í leiknum var Nejira Zahirovic leikmaður Þróttar Reykjavíkur/BFH með 14 stig. Stigahæst í liði Þróttar Fjarðabyggðar var Hrefna Ágústa Marinósdóttir með 6 stig.
Heimamenn sváfu fram eftir á sunnudegi
Leikið var aftur á sunnudag og þá spiluðu karlaliðin líka fyrri leikinn. Þróttur Fjarðabyggð byrjaði fyrstu hrinu illa. Leikmenn Þróttar Reykjavíkur vöknuðu tilbúnir í slag og spiluðu virkilega vel þannig að fyrsta hrinan endaði 14-25 fyrir gestunum. Þeir voru með gríðarlega forystu alla hrinuna og náðu heimamenn alls ekki að halda í við þá.
Loksins voru heimamenn vaknaðir og tilbúnir í þennan slag við gestina. Önnur hrina var hnífjöfn þar til Þróttur Fjarðabyggð náði loksins í þriggja stiga forskot í stöðunni 20-17. Forskotið jókst og það dugði heimamönnum heldur betur. Þeir unnu aðra hrinu 25-19.
Þriðja hrinan var einnig frekar jöfn þar til gestirnir tóku fram úr heimamönnum. Þegar staðan var orðin 15-21 fyrir gestaliðið var lítið sem heimamenn gátu gert til þess að jafna. Reykjavíkurliðið vann því þriðju hrinu 18-25.
Í fjórðu hrinu virtust heimamenn ætla að taka þetta. Alveg þar til um miðja hrinu þegar lið Þróttar Reykjavíkur skoraði 7 stig í röð og komst í 9-13. Fljótlega varð staðan 14-21 og Þróttur Reykjavík vann hrinuna 20-25.
Betri frammistaða kvennaliðsins í seinni leiknum
Kvennaliðin mættust líka aftur á sunnudeginum. Fyrsta hrinan var mun jafnari en daginn áður og komst heimaliðið í vænlega stöðu, 12-8, eftir að hafa skorað sex stig í röð. Þetta náðu gestirnir ekki að jafna og Þróttur Fjarðabyggð vann hrinuna 25-20.
Önnur hrina byrjaði ekki vel hjá Þrótti Fjarðabyggð og á örfáum mínútum voru gestirnir komnir með 17 stig gegn 7 heimastúlkna. Sá munur var alltof stór og heimaliðið skoraði aðeins átta stig í viðbót í hrinunni sem gestirnir unnu 15-25.
Þriðja hrina var mun jafnari og fljótlega var heimaliðið komið með góða forystu. Í stöðunni 21-16 slokknaði hins vegar á því. Gestirnir skoruðu sjö stig í röð og það sem eftir var hrinunnar tókst heimaliðinu aðeins að skora eitt stig. Lokastaðan var 22-25 fyrir Þrótt Reykjavík
Í fjórðu hrinu voru gestirnir með yfirhöndina allan tímann. Lokatölur urðu 20-25 fyrir Þrótt Reykjavík sem vann leikinn þar með 1-3. Tölfræði leikjanna frá sunnudag hefur ekki enn verið gefin út.
Kvennalið Þróttar er neðst í deildinni, án stiga eftir fimm leiki. Karlaliðið er í sjöunda sæti af átta, með fjögur stig úr fimm leikjum. Tvær vikur eru í næstu leiki. Karlaliðið heimsækir þá Aftureldingu í Mosfellsbæ en kvennaliðið HK í Kópavog.