Skip to main content

Blak: Tvö frá Þrótti í U-19 ára landsliðunum

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. nóv 2023 10:44Uppfært 16. nóv 2023 10:46

Tveir leikmenn Þróttar voru í U-19 ára landsliðum Íslands í blaki sem tóku þátt í Norðurlandamótinu sem fram fór í Rovaniemi í Finnlandi í lok október.


Arnar Jacobsen spilaði með drengjaliðinu. Það tapaði 0-3 fyrir Dönum í fyrsta leik en vann síðan England 3-2. Í fjórðungsúrslitum tapaði það fyrir Svíþjóð 0-3. Það mætti Færeyjum og Englandi í umspili um 5. – 7. sætið og tapaði þeim báðum 1-3.

Hrefna Ágústa Marinósdóttir spilarði með stelpnaliðinu. Mánuðurinn var annasamur hjá henni þar sem hún spilaði líka með U-17 ára liðinu á Norðurlandamóti í Danmörku tveimur vikum fyrr.

Stelpnaliðið byrjaði á 0-3 tapi gegn Finnum en vann síðan Noreg 3-1. Leikurinn gegn Dönum í fjórðungsúrslitum tapaðist 1-3 en síðan komu tveir 3-1 sigrar gegn Færeyjum og Englandi þar sem liðið náði fimmta sætinu.

Móðir hennar, Kristín Ágústsdóttir, var einn fararstjóra íslenska hópsins. Þá voru fyrrum leikmenn Þróttar áberandi í þjálfaraliðunum. Borja Gonzalez þjálfaði strákaliðið og Atli Fannar Pétursson, uppalinn Norðfirðingur, var honum til aðstoðar. Þeir þjálfa í dag kvennalið Aftureldingar. Mateo Castrillo þjálfaði stelpnaliðið en hann spilaði með Þrótti áður en hann færði sig til KA.