Blak: Þróttur vann botnslaginn við HK í oddahrinu
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. des 2024 12:31 • Uppfært 03. des 2024 16:19
Þróttur Neskaupstað vann HK í oddahrinu þegar liðin mættust í úrvalsdeild karla í blaki í Kópavogi á föstudagskvöld. Það skilaði Þrótti tveimur góðum stigum í neðri hluta deildarinnar.
HK fór betur af stað og vann fyrstu tvær hrinurnar, 25-17 og 25-19. Þróttur átti góðan kafla og var um tíma yfir í fyrri hrinunni en alltaf undir í þeirri seinni.
Þriðja hrinan var góð hjá liðinu, það leiddi hana allan tímann og vann 21-25. Fjórða hrinan var jafnari og liðin skiptust á forustunni en Þróttur vann að lokum 22-25 og knúði þar með fram oddahrinu.
Þróttur var alltaf skrefinu framar í henni. Nokkrum sinnum var jafnt en Þróttur hafði að lokum betur 13-15. Miguel Melero og José Federico Ferrón Martin voru stigahæstir hjá Þrótti.
Þróttur er enn neðst í deildinni en núna jafnt HK að stigum, bæði lið eru með 7 stig úr 11 leikjum. Völsungur er stigi ofar.
Kvennalið Þróttar á leik gegn KA í Neskaupstað klukkan 19:00 á morgun.
Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða
Leiðrétt: Í upphaflegri útgáfu var Börkur Marinósson sagður hafa verið annar af stigahæstu leikmönnun Þróttar. Hið rétta er að það var Miguel Melero.