Skip to main content

Blak: Þróttur tapaði fyrir Völsungi eftir upphækkaða oddahrinu

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. des 2024 10:55Uppfært 16. des 2024 11:29

Karlalið Þróttar tapaði fyrir Völsungi eftir upphækkaða oddahrinu í síðasta leik sínum fyrir jól. Kvennaliðið lá 0-3 fyrir HK. Leikið var í Neskaupstað á laugardag.


Völsungur hafði yfirburði frá fyrsta stigi í fyrstu hrinu og var 19-25 sigur þar ekki of stór. Húsavíkurliðið var aftur töluvert betra í annarri hrinu og vann hana líka 19-25.

Þeirri þriðju snéri Þróttur sér í vil með góðum kafla, úr 5-10 í 10-8 og vann hana 25-22. Liðið spilaði vel í þeirri fjórðu, skoraði meðal annars 10 stig í röð og komst í 13-2 áður en það vann hana 25-11 og knúði fram oddahrinu.

Völsungur leiddi upp í 6-8 að Þróttur skoraði fimm stig í röð og komst 11-8 yfir. Skömmu síðar kom slæmur kafli Þróttar, Völsungur skoraði fjögur stig í röð og breytti stöðunni úr 12-9 í 12-13. Eftir það var Völsungur allan tímann á undan í stigaskorinu en tókst ekki að gera út um leikinn fyrr en í 16-18.

Kvennaliðið tapaði sinni fyrstu hrinu líka 19-25 þar sem það lagaði heldur stöðuna í restina. Sú næsta fór 22-25 eftir að Þróttur hafði verið yfir í stuttan tíma. Þróttur átti líka ágæta þriðju hrinu en gaf eftir í lokin og tapaði 20-25.

Karlaliðið er í sjöunda sæti með 8 stig úr 12 leikjum en kvennaliðið í því sjötta með 6 stig úr 11 leikjum. Þau eru komin í jólafrí, karlarnir eiga leik 5. janúar en konurnar þann 11.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða