Skip to main content

Blak: Þróttur mætir HK í úrslitakeppninni

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. apr 2016 17:34Uppfært 06. apr 2016 17:35

Bæði karla og kvennalið Þróttar mæta HK í undanúrslitum Íslandsmótsins í blaki. Deildakeppninni lauk um liðna helgi.


Kvennaliðið spilaði við Aftureldingu á föstudagskvöld og tapaði 3-1 þrátt fyrir að hafa unnið fyrstu hrinuna. Heimaliðið tryggði sér deildarmeistaratitilinn með sigrinum.

Þróttarstelpur enduðu í þriðja sæti og mæta því HK sem varð í öðru sæti í úrslitakeppninni. Fyrsti leikurinn verður syðra þann 11. apríl en Þróttur á heimaleik að kvöldi miðvikudagsins 13. apríl.

Strákarnir spiluðu einnig við Aftureldingu og unnu 0-3 á föstudagskvöld en töpuðu í oddahrinu á laugardag. Fjórða sæti deildarinnar var þar með þeirra hlutskipti.

Andstæðingarnir verða því deildarmeistarar HK. Fyrst verður leikið í Kópavogi 10. apríl en í Neskaupstað þriðjudagskvöldið 12. apríl.

Þau lið sem fyrr vinna tvær viðureignir komast áfram í úrslit.